Kærleiksland

Trúarlega bloggið. Færslur þrisvar í viku, á sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum kl. 21:03

miðvikudagur, maí 18, 2005

Jæja, núna á föstudaginn útskrifast hann Jói Palli, besti vinur minn skv. skilgreiningu, úr Fjölbraut við Ármúla, og verður þá mikið stuð hjá okkur... hann átti svo líka 21 árs afmæli fyrir nokkrum dögum þannig að ég hef ákveðið að skrifa færslu honum og hans afrekum til heiðurs, þar sem ég gleymdi að kaupa handa honum afmælisgjöf. Ég hvet alla, bæði þá sem þekkja hann og þá sem þekkja hann ekki til að lesa hana.

Ég kynntist Jóa í 9. bekk, en fyrstu samskipti okkar voru þannig að ég kom með tölvuna mína heim til hans. Þá voru nokkrir strákar úr Hagaskóla að fara að lana (that's right) og Fúsi, sem ég þekkti ágætlega, bauð mér að koma með. Mömmu hans leist þó ekki nógu vel á að einhver sem hún hafði aldrei séð áður ætlaði sér að koma með tölvuna sína í húsið þeirra og vera þar nánast alla nóttina, og Jói sagði mér eftir á að hún hefði beðið hann að passa að ekki neitt hyrfi úr húsinu (ef ég man rétt). Jói ákvað þó að treysta mér, og eftir þetta urðum við mjög góðir vinir.
Sameiginlegt áhugamál okkar á þessum tíma voru tölvur, en Jói, sem er hugsanlega mesti dellukall í sögu alheimsins, hafði mikla tölvudellu, og niðri í kjallara honum mátti finna hrúgur af tölvum sem var búið að taka í sundur, og tölvuhluti hér og þar. Hann virtist svo geta lagað flest sem við kom tölvum, en hann varð þekktur í vesturbænum (og víðar) sem Jói tölvukall, og enn þann dag í dag eru einhverjir gaurar út í bæ að hringja í hann og biðja hann að koma að gera við tölvurnar sínar.

Eftir hagaskóla fór hann í tölvufræði í Iðnó, og hóf glæstan feril í matsölustaðabransanum sem uppvaskari á Café Óperu. Hann varð strax þekktur fyrir mikinn dugnað, og var svo kallaður Jói Gonzalez (í höfuðið á þanna rottunni sem hleypur hratt, að ég held.. skýrir sig sosem sjálft). Fljótlega var hann færður úr uppvaskinu yfir í eldhúsið og var stuttu seinna byrjaður að vinna þar sem kokkur. Um sumarið 2003 fór hann svo í atvinnuviðtal á einhverju hóteli útí rassgati. Hann náði einhvernveginn, þrátt fyrir að vera ekki nema 19 ára og með frekar litla reynslu, að kjafta sig inn á gaurana þar, og var ráðinn aðstoðar-yfirkokkur þar fyrir sumarið, með guð má vita hvað á mánuði í laun.
Þetta sumar sá ég hann ekkert, þar sem hann tók sér nákvæmlega 2 daga í frí (hann vann allar helgar).

Þegar Jói fékk bílpróf þegar hann var 17 ára, breyttist tölvudellan hans í bíladellu, og hann breyttist í Jóa bílakall. Hann ákvað að hann ætlaði að kaupa sér bíl sjálfur, og bjó til fjárhagsplan á Excel (sem hann sýndi mér), þar sem hann skipulagði, mánuð fyrir mánuð hvernig hann ætlaði að vinna sér inn milljón á u.þ.b. 2-3 árum. En það endaði svo með því að hann náði tilsettri upphæð á innan við einu ári, og rúmlega það (þrátt fyrir að vera í skóla á meðan) og keypti sér svo Fiat Coupé fyrir fullt af pening, eins og flestir vita, sem var stolt hans og gleði í langan tíma.

Núna er hann svo enn og aftur að skipta um dellu, en þessa dagana hefur hann mikinn áhuga á skotveiði, og þá aðallega á veiðihundum og uppeldi á þeim. Hann er hægt og rólega að breytast í Jóa veiðikall, og það sannaðist um daginn þegar hann bauð mér heim til sín til að sýna mér veiðigræjurnar sem hann hafði keypt sér, en þar mátti m.a. finna talstöðvar, húfur í ýmsum felulitum, felulitayfirhafnir, skothanska með gikk-putta, og endalaust fleira af einhverju furðulegu veiðidóti. Inni í herberginu hans má svo finna bækur um hundauppeldi sem hann er búinn að kynna sér vel, og í október ætlar hann svo að kaupa veiðihund á 150.000 kall.

Af einhverjum furðulegum Jóa-ástæðum fékk hann svo líka í haust mikinn áhuga á þýsku, og er að rúlla henni upp. Á haustönninni tók hann þýsku 100 og 200, og var hæstur í skólanum í öðrum hvorum áfanganum, og þessa önn er hann að taka 300, 400 og 600 (allt í einu) og er með níur og tíur í öllu.
Og svo fékk ég jólakort frá honum á þýsku.
Þessi þýskuáhugi hans er slíkur, að hann er búinn að ákveða að fara til Þýskalands í tvo mánuði í haust til að læra ennþá meira, og svo eftir það ætlar hann aftur heim í vélaverkfræði að ég held.

Það er margt fleira sem má skrifa um hann Jóa og margt fleira furðulegt sem hann hefur afrekað, en ég læt þetta duga. Við eigum þannig séð voða lítið sameiginlegt, ég veit ekki rassgat um bíla, veiði, né þýsku, og honum er nokkurnvegin sama um flesta tónlist, nema kannski hiphop og þá tónlist sem hljómar vel í græjunum hans. Engu að síður náum við mjög vel saman, hann er mjög traustur og góður vinur, og eins og allir sem þekkja hann vita, frábær (og ruglaður) drengur. Ég óska honum því til hamingju með afmælið um daginn og útskriftina á laugadaginn. Jei!

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

<< Heim