Kærleiksland

Trúarlega bloggið. Færslur þrisvar í viku, á sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum kl. 21:03

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Eftir u.þ.b. 2 mánuði verður þetta hús orðið tómt og við flutt eitthvað annað. Mér þykir það undarlegt og frekar leiðinlegt. Ég er búinn að búa hérna í rúmlega 7 ár sem er lengur en ég hef búið á nokkrum öðrum stað um ævina. Ég mun því kveðja það með trega í hjarta o.s.frv. Í tilefni af því ætla ég að rekja ævi mína þau ár sem ég hef búið hérna.

Október 1999: Egill flytur inn í Ásvallagötu 48 ásamt restinni af fjölskyldunni. Þá keyptum við bara neðri hæðirnar tvær. Og engan bílskúr. Egill er ekki sáttur þar sem hann fer úr hæfilega stóru herbergi á Kaplaskjólsveginum yfir í einhverja litla holu sem er þar að auki heitari en kyndingarklefi helvítis. Ekkert fleira merkilegt gerist það árið.

2000: Egill klárar grunnskólapróf frá Hagaskóla með stæl. Ákveður að fara í MR af einhverjum undarlegum ástæðum. Byrjar þar haustið 2000. Uppgötvar áfengi og skemmtanagildi neyslu þess. Leggst í þunglyndi og almenna angist sökum þess að hann hatar skólann. Haustið fer svo aðallega í að læra á gítar og skalla veggi.

2001: Skóli verður skemmtilegri. Níu ára barn kveikir í fjölskyldubílnum af engri ástæðu og hann brennur til ösku. Egill hlær að því enn þann dag í dag. Klárar 3. bekk í MR. Getur sér gott orð sem uppvaskari sumarið 2001. Gæti það orðið framtíðarstarf Egils?
Ákveður að hann vilji stofna hljómsveit og spila á gítar. Hefur að gera upp bílskúrinn. Gamli maðurinn á efri hæðinni flytur út og Ingólfur frændi Egils flytur þangað inn.

2002: Egill klárar að gera upp bílskúr og það verður töff aðstaða fyrir Egil og félaga. Egill verður ástfanginn í fyrsta af tveimur skiptum. Því miður er það af einhverjum útlendingi hinumegin á plánetunni. Egill klárar 4. bekk í MR og er þá búinn að eignast þónokkra vini þar. Egill vinnur hjá Grasagörðunum um sumarið, og hefur einnig að blogga. Haustið er í móðu, en fer að einhverju leyti í það að hanga með einhverjum færeyingum og að mæta lítið í skólann.

2003: Egill afrekar það að verða svo þunnur að hann endar á spítala. Er það hans helsta framlag til menningarsögu Íslendinga fram að þessu. Vorönnin er annars döll. Frændi Egils flytur út og Egill fær því stóra herbergið á efri hæðinni. Egill heldur upp á það með að gubba yfir baðherbergið nokkrum dögum seinna. Fellur í 5. bekk um sumarið. Íhugar að taka hann aftur en endurteknar martraðir um efnafræðitíma hjá lífsleiðum kennara sem lítur út eins og lundi verða til þess að hann ákveður að hætta og fara eitthvert annað. Vinnur hjá póstinum um sumarið. Tekur fjarnám í FÁ um haustið. Útlendingurinn sem Egill er ástfanginn af kemur í heimsókn milli jóla og nýárs. Hún skýrir Agli frá því að hún hafi byrjað með þýskum blakspilandi munki sem heitir eftir frægri teiknimyndapersónu. Egill lendir því í ástarsorg, og heitir því að falla aldrei aftur fyrir kvenfólki sem er danskt að uppruna en býr í Ástralíu.

Jæja ég þarf að fara. Restin af þessari epísku ævisögu kemur á eftir eða á morgun. Eða hinn.

lag dagsins: Autechre - Piezo

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

<< Heim