Kærleiksland

Trúarlega bloggið. Færslur þrisvar í viku, á sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum kl. 21:03

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Jæja hér er seinni hluti Ásvallagötusögu minnar

2004: Byrjar að vinna í Mýrarhúsaskóla sem stuðningsfulltrúi. Uppgötvar dásemdir þess að vera fullur allar helgar.
Ráðist er á Egil í apríl af tveim fávitum fyrir utan heimili hans útaf engu. Þeir lumbra á Agli með einhverjum lyklum, en Egill heldur þó velli. Er það að miklu leyti þökk sé því að Egill þróar á því augnabliki bardagatækni fyrir fólk sem kann ekki að slást, sem felst í því að kýla nógu mikið útí loftið og öskra blótsyrði og ógnvekjandi hótanir um leið. Íhugar að skrifa bók um hana. Hættir við.
Fer á Hróaskelduhátíðina um sumarið ásamt Krumma. Skemmtir sér konunglega þar þrátt fyrir drullusvað og teprulega tilhneigingu Krumma til að fara alltaf að sofa kl. 2. Kynnist hressum norskum metalhausum.
Byrjar að vinna á sambýli við heimkomu. Þolir ekki yfirmann sinn. Heldur magnþrungið tvítugsafmæli. Klárar stúdentspróf frá FÁ um jólin.

2005: Tekur sér frí frá skóla og byrjar að vinna á leikskóla. Uppgötvar þar þann hæfileika sinn að geta leitt hávaða og öskur í börnum fullkomlega hjá sér. Íhugar að skrifa bók um það. Hættir við.
Sparkar í nál og hún stingst þvert í gegnum tánna á honum.
Fúnkerar óvart sem rebound í nokkra mánuði fyrir einhverja ráðvillta kattarkonu úr Garðabænum. Er sagt upp í því hlutverki um vorið. Egill heitir því að fúnkera aldrei aftur sem rebound fyrir ráðvillt kvenfólk úr Garðabænum.
Fer aftur á Hróaskeldu um sumarið og líka í riverrafting. Íhugar að hefja feril sem raðmorðingi. Hættir við og skráir sig þess í stað í heimspeki við HÍ.
Eignast hund sem heitir Týri. Á með honum margar góðar stundir.
Man í lok árs eftir hljómsveitarplönum sínum frá því árið 2001. Fær systur sína til liðs við sig og hefur að kenna henni á hljóðfæri og endurvekur hljómsveit. Missir vitið tímabundið í nokkra daga í lok árs, en fær það aftur 17. desember og heldur upp á það með að kaupa fartölvu. Heldur sveitt partí á gamlárskvöld.

2006: Egill heldur áfram í heimspeki og þar á bæ gerist fátt. Kemst að því að þekkingarfræði er heimskuleg.
Hinir illu foreldrar Egils neyða hann til að senda Týra hinn vitgranna upp í sveit. Veldur það Agli mikilli sorg og saknar hann enn þann dag í dag félagsskaps hans og heimsku.
Uppgötvar áhrifamátt raðgreiðslna og byrjar að kaupa ýmiskonar drasl. Kynnist huggulegri stelpu. Fer til Boston á tónleika og dvelur hjá vinkonu sinni sem er töff. Fer enn og aftur til Hróarskeldu um sumarið ásamt fríðum flokki. Hangir svo í köben í viku, fer í karókí og étur pizzu.
Þegar hann kemur heim uppgötvar hann að fjölskyldan hefur eignast tvo kettlinga. Egill treystir þeim ekki til að byrja með en tekur þeim svo opnum örmum þegar hann uppgötvar hversu vitgrannir þeir eru. Íhugar að þjálfa þá upp sem blóðþyrsta herketti og heyja stríð við ketti kattarkonunnar úr Garðabæ. Hættir við.
Vinnur um sumarið við að kveikja í illgresi og keyra risastóra slátturvél. Endar sumarið á að klessa henni í grindverk og rústa öllu þar í kring.
Byrjar aftur í skólanum. Hjálpar til (í einhverjum mæli) við að endurreisa hið áður dapurlega félagslíf í heimspekideildinni. Ritstýrir m.a. blaði.
Hefur í huga að spila með hljómsveit sinni um áramótin en neyðist til að hætta við þar sem trommarinn sofnar á höndinni á sér og lamast tímabundið.

2007: öööö... ég fór á indókína í gær. Svo fór ég í mat til afa og ömmu í síðustu viku. Svo flyt ég eftir tvo mánuði.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

<< Heim