Kærleiksland

Trúarlega bloggið. Færslur þrisvar í viku, á sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum kl. 21:03

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Gleðilegan sunnudag!


Í dag á ákveðin manneskja sem ég þekki/þekkti afmæli. Ég er reyndar ekki búinn að tala við hana í háa babars tíð og það gæti svosem verið að hún sé hætt að skoða þetta blogg, but no matter. Ég ákvað samt að gera svona afmælisfærslu.

Samskipti okkar voru á sínum tíma mjög svo sveiflukennd, aðallega sökum sérkennilegra aðstæðna, og hlutir á milli okkar enduðu að lokum líklega eins ömurlega og þeir hugsanlega gátu... Það mátti rekja til samspils almennrar heimsku okkar beggja og annarra þátta. Við heilbrigðari aðstæður hefðu hlutirnir eflaust þróast á mun heppilegri hátt, en svona er þetta nú bara stundum, og lítið hægt að velta sér upp úr því lengur.
Eftirá að hyggja, þá er það sem ég kýs hinsvegar að muna frá þessum tíma það þegar allt var í góðu hjá okkur. Nokkrir mánuðir sem ég eyddi með einstaklega vel gerðri og indællri manneskju sem ég tengdi rosalega vel við, og sem var mjög svo gaman að vesenast með. Ég vil líka halda að það hafi verið gagnkvæmt. Þrátt fyrir að þetta hafi verið tiltölulega stuttur tími, þá var hann þó mjög sérstakur í mínum huga af mörgum ástæðum, og það eru allskonar hlutir tengdir honum sem gleðja mig þegar ég hugsa til baka, og sem ég á eftir að muna um ókomna tíð. Ég er mjög svo þakklátur fyrir það.

En þessi manneskja er svosem ekki fullkomin frekar en nokkur annar, og undir lokin gerði hún alveg stórkostlega bjánalega og særandi hluti sem ég er ekki einusinni viss um að hún átti sig ennþá á sjálf. Hlutir sem, svo maður sé nú soldið dramatískur, höfðu jafnvel bara áhrif á hvernig ég hegða mér í samskiptum við fólk í dag. Sem er líklega bæði gott og slæmt, en það er efni í aðra færslu (og sjálfshjálparbók, ef út í það er farið)...

En þrátt fyrir það, þá tel ég mig ennþá þekkja hana betur en flestir (nema hún sé gengin í sértrúarsöfnuð eða eitthvað), og ég veit að hún er að upplagi með einstaklega gott hjartalag. Ég á því erfitt með að vera fullur af einhverri reiði og biturð til lengri tíma litið, enda er voða lítið um slíkt hjá mér í dag.
Og þó það megi kannski líta á þetta í dag sem stuttan og skrautlegan kafla í ævi okkar, sem hafði því miður frekar súran og tilgangslausan endi, þá þykir mér þrátt fyrir það ennþá ofsalega vænt um hana, og ég sakna hennar á hverjum degi.
Einhverjum finnst það kannski undarlegt... en sama er mér. Þetta er góð og meinlaus tilfinning sem gerir mig glaðan, og ég hef því engan sérstakan áhuga á að losna við hana.
Þannig er ég nokkuð viss um að ég eigi eftir að muna eftir afmælinu hennar næstu 60 árin, eða alveg þangað til heilinn á mér nennir bara að muna hluti sem tengjast ættfræði, hægðum og Matlock.

Allavegana, til hamingju með afmælið ef þú lest þetta jó.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

<< Heim