Kærleiksland

Trúarlega bloggið. Færslur þrisvar í viku, á sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum kl. 21:03

sunnudagur, ágúst 16, 2009

I. Þegar ég var unglingur þótti Scarface rosa töff mynd. Tony Montana var aðalgaurinn, og allir vildu vera töff gangsterar eins og hann. Myndin er líka í hávegum höfð meðal amerískra rappara (eða var það allavegana á síðustu öld) og það er oft samplað úr myndinni í einhverjum lögum. Mér finnst það svolítið skrýtið þegar litið er til þess hvernig fer fyrir aðalpersónunni að lokum. (hér koma spoilerar) Konan hans fer frá honum, hann drepur besta vin sinn í einhverju frekjukasti, systir hans deyr í framhaldi af því, og svo deyr hann sjálfur eftir haglabyssuskot í bakið, óhamingjusamur, útúrkókaður og sorglegur lítill karl. Vill einhver útskýra fyrir mér hvað það er í mannlegu eðli sem gerir það að verkum að fólk horfir framhjá þessari frekar niðurdrepandi niðurstöðu myndarinnar, en einblínir frekar á það að Tony Montana sé svo karl í krapinu sem láti engan vaða yfir sig og þannig eigi maður sko að vera?

Ekki aðeins það heldur er Tony Montana frekar leiðinlegur gaur. Yfirgengisseggur sem frekjast þar til hann fær það sem hann vill, og segir ekki einusinni sérstaklega fyndna brandara. Þetta er svona gaur inn á næsta borði á veitingastað sem hefur ógeðslega hátt og fer í taugarnar á öllum í kring um sig, og ég held að það eina sem forði áhorfendum frá að hata hann bara með öllu er hvað Al Pacino er óheyrilega sjarmerandi leikari.

Ég hef líka spáð í hver boðskapur myndarinnar sé.. er það að glæpir borgi sig ekki því þá fær maður haglabyssuskot í bakið, eða að kapítalismi sökki því frekjudollur og leiðindaskjóður eins og Tony Montana þrífist vel í þannig samfélagsskipulagi? Í byrjun myndarinnar er Tony Montana mikið að tuða yfir því hvað Castro sé mikill asni, en hvað Bandaríkin séu frábær, því tækifærin til að vera frekjudós og asni séu á hverju strái. Maður spyr sig!

3 Ummæli:

Skrifa ummæli

<< Heim