Kærleiksland

Trúarlega bloggið. Færslur þrisvar í viku, á sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum kl. 21:03

föstudagur, mars 14, 2008

Hausinn á Agli

Ég hef löngum átt í vandræðum með að sofna á kvöldin, og ligg oft í lengri tíma áður en ég næ að festa svefn. Eitt af því sem ég hef gaman af að dunda mér við meðan ég ligg og bíð eftir að lognast út af er að einbeita mér virkilega að einhverju ákveðnu skeiði í lífi mínu, og reyna eiginlega að koma mér aftur í það hugarástand sem einkenndi mig þeim tíma. Það er nefnilega sláandi þegar maður virkilega veltir því fyrir sér, hvað maður breytist mikið í gegn um árin, hvað mikið bætist við og hvað mikið dregst frá, upp að því marki að það er jafnvel erfitt að tala um sama “sjálf” frá ári til árs.
Hvað sem öllum (frekar óspennandi) heimspekilegum vangaveltum um það líður, þá býður þetta upp á mjög áhugaverða “sjálfsskoðun” og er eitthvað sem mér finnst að fólk ætti að gera meira af, einfaldlega því það er gaman. Maður er ekki að staulast í gegn um þetta líf ár eftir ár án þess að hugarástand fyrri ára geti haft eitthvað raunverulegt gildi fyrir manni. Maður hefur lifað í gegn um hitt og þetta, og þó það sé kannski fýsilegt einblína á núið í daglegum athöfnum, þá getur það gert alveg ótrúlega mikið fyrir mann að virkilega sökkva sér af og til á mjög djúpan hátt ofan í það líf sem maður hefur lifað. Þá er ég ekki að tala um að hugsa bara að telja upp í hausnum á sér “þarna gerði ég þetta og þetta og þetta”, heldur að reyna að upplifa það á einhvern hátt aftur. Það er eins og að skoða myndaalbúm í hausnum á sér, sem er þó á einhvern hátt mun beindtengdara öllum manns innri upplifunum, sem maður getur í raun endurskapað sem einskonar sögu eða listaverk sem maður getur virt fyrir sér úr fjarlægð og um leið verið algjör hluti af.
Sumir kæra sig ekkert upp að velta sér upp úr lífi sínu, oft út af slæmum uppákomum, eða vondum ákvörðunum sem þeir hafa tekið. Ég er þó svo heppinn að fram að þessu sé ég ekki eftir neinu stórvægilegu í lífi mínu, eða hef upplifað eitthvað sem er hræðilegt að öllu leyti. Sá sársauki sem ég hef upplifað í lífinu til þessa hefur nánast einungis verið bundinn við þunglyndi, kvíða, og svo ástarsorg, sem er líklega heppilegasta tegund sársauka sem fyrirfinnst.
Ef mér tekst virkilega vel til þá tekst mér á vissan hátt að umturna mínum innri upplifunum alveg í smá tíma. Hvort sem það var þegar ég var smápatti með of stór gleraugu í Kanada, krakkabjáni í Fossvoginum, ofvirkur unglingur að stökkva á milli veggja í Hagaskóla, þunglynd taugahrúga á fyrsta ári í menntó að biðja fyrir því að verkfallið myndi aldrei enda o.s.frv.

Eitt af áhugaverðari skeiðum lífs míns hingað til var á síðunglingsárum mínum þegar ég átti í einhverju semi-rómantísku sambandi við manneskju sem bjó hinumegin á plánetunni og ég hafði aldrei hitt. Eftirá að hyggja finnst mér eiginlega mjög merkilegt út frá sjónarhóli mannkynssögunnar að hafa lent í þessu, þar sem samskipti með þessu sniði eru líklega einsdæmi í henni. Ákveðnir hlutir mannlegra samskipta eru algerlega sniðgengnir um óákveðinn tíma, þ.e.a.s. svipbrigði, raddblær, og bara raunveruleg mannleg nánd, og það eina sem maður hefur til að moða úr er persónuleiki og skoðanir viðkomandi í formi einhverra orða á skjá (og símtöl af og til).
Við áttum í samskiptum í sirka tvö ár. Við tengdumst strax frá upphafi alveg óvenjulega sterkum böndum og vorum á þessum tíma afar náin og góðir vinir. Við eyddum kannski 2-3 tímum á dag í spjall, þrátt fyrir 10 klst. tímamismun, og ég á rúmlega 100 bréf sem hún sendi mér á þessum tíma sem fjölluðu um allan fjandann. Sirka einu og hálfu ári eftir að við kynntumst, um sumarið, sagði hún mér að hún ætlaði að koma að heimsækja mig um áramótin. Eftirvæntingin var mikil í þetta hálfa ár, og ég hafði ekki verið svona spenntur fyrir jólunum síðan ég var svona sex ára, sem var gaman! Ég man líka ennþá hvað ég var óhóflega stressaður á flugvellinum þegar ég fór að sækja hana út á völl í einhverju algjöru fárvirði.
Hún var hjá mér í fimm daga, sem var afar skemmtilegur tími. Ég gaf henni hákarl og fór með henni í Bláa Lónið. Allt túristadótið. Heimsóknin öll var algjörlega framar vonum og fullkomlega laus við öll yfirvofandi vandræðalegheit. Svo var hún líka geðveikt sæt!
Engu að síður þá endaði þetta þó grófum dráttum á því að á þessu hálfa ári var hún búin að gera sér grein fyrir að þetta væri óraunhæft sem samband, og var búin að loka á slíka möguleika þegar hún loksins kom hingað. Að auki var hún byrjuð með einhverjum blakspilandi þjóðverja. Vinasambandið dó svo nánast algjörlega út eftir það á frekar niðurdrepandi hátt, sem hefði kannski verið hægt að fyrirbyggja hefði unglingaheimska ekki spilað svona stóran þátt í framvindu mála, sem ég ætla ekki að fara út í hér.
Næstu vikurnar var ég svo í rusli eins og niðurbrotnum táningi sæmir. Ég grét mikið á hverjum degi, fannst allt vera tilgangslaust, ég gat ekki sofið í rúminu mínu nokkra daga á eftir því ég fann ilmvatnslykt af koddanum og fleira yfirgengilega dramatískt. Ég upplifði ástarsorg eins og ég hafði aldrei þekkt hana áður, og þeir sem standa mér hvað næst muna svo líklega eftir því gengdarlausa væli sem þau þurftu að þola frá mér. Ég er þó mjög þakklátur fyrir það og eftir þessa reynslu mína ákvað ég að allir mínir vinir hafa fullt leyfi til að væla í mér í framtíðinni út af raunum sínum.
Eftirá að hyggja er ég þó mjög stoltur af þessum kafla í lífi mínu. Það liggur við að ég sé glaður að þetta hafi ekki endað á einhvern hefðbundnari hátt. Ég er nokkuð viss um að fólk velti sér ekki eins mikið fyrir sér gömlum samböndum sem gengu bara sinn vanagang og runnu út í sandinn út af einhverjum hefðbundnum “sambandaástæðum”. Það er einhvernvegin innbyggt í eðli okkar að allt sem að “varð ekki fullreynt” eða er sveipt einhverri dulúð getur haft mun djúpstæðari áhrif á mann, þar sem ímyndunaraflið fær þá að leika algjörlega lausum hala. Og það á vel við um þetta tilvik. Ég átti fimm daga með manneskju sem ég hafði eiginlega bara þekkt sem einhverja mjög svo upphafna hugmynd í hausnum á mér í 2 ár. Þessir dagar virka enn þann dag í dag mjög óraunverulegir og draumkenndir einhvernveginn.
Ég fæ reyndar ennþá smá hnút í magan þegar ég les 5-6 ára gömul bréf þar sem við erum að velta fyrir okkur heimsókninni, hræðslu við afleiðingar, en komumst að lokum að þeirri niðurstöðu að það séu engar líkur á að hlutirnir geti fokkast upp á milli okkar þar sem tengslin á milli okkar séu svo sterk. Þessa dagana heyri ég í henni af og til, við skiptumst á upplýsingum á hlutlausan máta en allur “neisti” sem var til staðar í gamla daga er löngu horfinn og verður líklega aldrei endurvakinn.
Ég hef þó samt sem áður náð það mikilli fjarlægð á þetta tímabil (enda ár og aldir síðan) að ég get virkilega hugsað um þennan tíma og virt hann fyrir mér af og til án þess að kippa mér mikið upp við það. Þetta er einhverskonar mini-tragedía sem ég get endurleikið í hausnum á mér þegar mér leiðist lífið.
Það er líka einhvernveginn þannig hjá mér og kannski öðrum, að mjög sársaukafullar tilfinningar (og að sjálfsögðu mjög góðar líka) þ.e.a.s. þær sem eru ekki beinlínis mannskemmandi, hætta með tímanum að vera dæmdar út frá einhverjum “góðar-slæmar” mælikvarða og fara yfir í “sterkar-veikar” mælikvarða. Maður getur að sjálfsögðu haldið áfram að naga sig yfir einhverju sem var leiðinlegt á sínum tíma, en ef maður nær að setja þetta í annað samhengi löngu eftir að það er liðið hjá og maður er búinn að ná áttum, og dáðst á vissan hátt bara að því hvað lífið getur stundum verið ömurlegt og hversu merkilegt það er hvað maður upplifir vissa hluti tilverunnar sterkt, hversu leyndardómsfullt og algjörlega handan við öll hlutlæg sannindi það er, þá er maður í raun að gangast af fullum huga við lífinu sem manni er gefið og hinu óumflýjanlega og ömurlega sem það á það til að þröngva upp á mann.
Og með tilliti til þess, þá get ég fullyrt það að það er ekkert leiðinlegra en sá tími í lífi manns þar sem maður er í fullkomnu jafnvægi, er í einhverri rútínu og lifir í fullkomlega hlutlausri sátt við lífið. Þannig tími leysist algjörlega upp og rennur saman í minningunni. Það er þó rétt sem vinur minn benti mér á að það er einmitt þá sem maður kemur sem mestu í verk, og atorkar kannski eitthvað sem maður getur verið stoltur af. En þegar maður er að endurspegla á þann tíma þá er það bara eins og að horfa á táknmálsfréttir.

Þetta er líklega persónulegra en nokkuð annað sem ég hef skrifað hérna... með persónulegra á ég við að ég er reyna að tjá í orðum mína prívat og persónulegu reynslu af því að vera til sem mannvera. Þessvegna er ég ekki viss um að nokkur maður nái að tengja við þetta, en það er kannski bara allt í lagi. Það sem hægt er að tjá fullkomlega almennt er hvort sem er einskis virði.

Ég ætla samt rétt að vona að þetta hafi ekki hljómað eins og endirinn á einhverjum One Tree Hill þætti….

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

<< Heim