Kærleiksland

Trúarlega bloggið. Færslur þrisvar í viku, á sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum kl. 21:03

laugardagur, júní 27, 2009

I. Ég er búinn að fylgjast vel með þessu Icesavemáli, og það er að myndast mikil togstreita hjá mér milli raunsæis og réttlætiskenndar minnar. Ég sveiflast eiginlega á milli tveggja sjónarmiða:

Sjónarmið 1: Ég vil að þessir samningar verða drifnir í gegn svo við lendum ekki í enn meiri vandræðum og að enn ein stjórnarkreppa bætist ofan á allt vesenið. Þrátt fyrir augljóst óréttlæti, þá er þetta skásti kosturinn í stöðunni, og illu er best af lokið. Rausið í íhaldinu og framsókn fer í taugarnar á mér og maður tekur ekki mark á nokkru sem kemur úr þeirra munni. Mér finnst reyndar að það ætti að vera skammakrókur á Alþingi þar sem þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar geta bara setið, haldið kjafti og skammast sín allavegana næstu tvö árin. Og hvernig var það annars, voru það ekki sjálfstæðismenn sem lýstu því yfir í kjölfar hrunsins að við myndum borga þetta? Og voru ekki komin drög að samningum í þeirra stjórnartíð, sem eru alls ekki svo ólíkir þeim sem liggja núna fyrir?? Hvað er það nákvæmlega sem þið eruð að leggja til að verði gert, helvítis hræsnararnir ykkar? Reynið bara að þegja og sýna smá auðmýkt.
Og Sigmundur Davíð í guðanna bænum haltu kjafti, helvítis lýðskrumarinn þinn.

Sjónarmið 2: Við borgum ekki þennan andskotans pening því þetta er ósanngjarnt og óréttlátt sama hvernig litið er á það. Afhverju eiga ég og afkomendur mínir að borga einhverjar stjarnfræðilegar skuldir sem einkareknir bankar stofnuðu til? Bankar sem voru knúnir áfram af einhverju gildismati og hugmyndafræði sem fer þvert gegn öllu sem ég trúi á í lífinu??? Á meðan einhverjar frekjudollur í jakkafötum mökuðu krókinn í áraraðir sat ég bara heima og skammaðist yfir þessu. Ég samþykkti aldrei þessa fávitavæðingu, né nokkur annar sem ég þekki. Og svo allt í einu því allt fór til andskotans hjá þeim þá á ég að redda þeim???? Og afhverju í fjandanum var ríkisábyrgð á þessu öllu saman?? Ég vil að þessir samningar verði felldir. Mér er drullusama þó við einangrumst í alþjóðasamfélaginu. Þetta "alþjóðasamfélag" er hvort sem er ömurlegt og rotið að innan, og ég vill ekkert hafa með það að gera. Farið bara í rassgat, ég ætla að flytja út á land og byrja að rækta gulrætur.

Ég hef hallast að sjónarmiði 1 undanfarna daga, en þessa stundina er mjög auðvelt að sannfæra mig um annað, þannig að ef við viljið megið þið endilega reyna það.

fimmtudagur, júní 25, 2009

I. Við tökum kannski upp plötuna á Flateyri. Jibbí!

II. Ég er að fara að passa tvo naggrísi í tvær vikur. Jibbí!

III. Ég horfði á einhvern raunveruleika þátt um hunda og eigendur þeirra áðan. Það var líklega með því fyndnara sem ég hef séð. Hádramatískasta móment kom í lokinn þegar einn dómaranna var að skamma einn þáttakendann fyrir að klæða hundinn sinn í kjól. En eigandinn stóð sko hörð á sínu, hundurinn hennar var einfaldlega í kjól svo hún myndi ekki sólbrenna. Svo fór hún að grenja.

IV. Ég var að taka minn síðasta "bloggrúnt" frá því einhverntíman á síðasta ári og svona 80% af þeim bloggurum sem ég skoðaði á sínum tíma eru hættir þeirri iðju. Ég kenni Facebook um þessa hnignun, og reyndar bara um flest sem slæmt er í heiminum. En það er þó lífsmark með sumum og ég ætla að reyna að koma upp svona linkalista á þá.

fimmtudagur, júní 18, 2009

I. Mér leiðist átök við fólk og slíkt fer alltaf illa í mig. T.d. að rífast við vini eða fjölskyldumeðlimi, kvarta yfir lélegri þjónustu einhversstaðar, skammast í vinnufélaga, kvarta yfir hávaða í næsta húsi og eitthvað þar fram eftir götum. Ég get átt í slíkum samskiptum þegar mér finnst ástæða vera til, en það gerir það yfirleitt að verkum að ég er í pirruðu skapi það sem eftir lifir dags og hugsa ekki um annað. Þá gildir einu hvort ég "hafði betur" eða ekki, eða hvort einhver ágreiningur hafi verið leystur. Maður spyr sig hvaða erindi ég hef eiginlega á þessa jörð þar sem 50% af samskiptum fólks virðast ganga út á þetta.

II. Afhverju er ógeðslegt svona sterkt orð? að segja að eitthvað sé "geðslegt" er ekkert sérstaklega merkingarþrungið en um leið og þetta ó er komið fyrir framan verður þetta orð mjög ógnvekjandi. Heimsku málvenjur.

III. Ég var að horfa á Scrubs þáttinn þar sem feita hjúkkan deyr. Stundum vildi ég óska þess að ég væri trúaður. Að hafa eitthvað haldreipi sem ég gæti haldið mér í, sama hvað bjátaði á. Að allt það ömurlega og van-geðslega sem eigi sér stað gerðist af einhverri ástæðu. Að öll vonbrigði lífsins eigi sér einhverja skýringu.
Ég held samt að allir trúi á eitthvað, annars væri ekki tæpast hægt að lifa. Það er samt líklega hættulegra að trúa á eitthvað sem finna má á þessari jörð. Því ef það bregst á einhvern hátt þá getur maður fátt annað gert en að skjóta sig bara í hausinn. Eins og t.d. nasistarnir í fjöldasjálfsmorðsmyndinni Der Untergang. Þeir trúðu á nasisma og þriðja ríkið, en þegar það fór allt til fjandans þá skutu þeir sig allir í hausinn (einn af öðrum í 146 mínútur). En ef maður trúir á eitthvað sem er ekki hægt að hrekja eða afsanna þá er maður nokkuð seif.