Kærleiksland

Trúarlega bloggið. Færslur þrisvar í viku, á sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum kl. 21:03

þriðjudagur, febrúar 27, 2007


Muniði eftir Gaahl úr norsku gleðisveitinni Gorgoroth? Hann er víst nýkominn úr djeilinu kallinn. Það segir wikipedia allavegana:
"In 2006, Gaahl spent another 14 months in prison for assaulting a man and threatening to drink his blood in 2002.".
En Gaahl dó nú heldur betur ekki ráðalaus og tókst, þrátt fyrir að vera lokaður inni að gefa út plötuna 'Ad Majorem Sathanas Gloriam' árið 2006 með Gorgoroth. Það er greinilega fátt sem Gaahl lætur stöðva sig.
Ég er virkilega að íhuga að hætta þessu háskólakjaftæði, flytja til Noregs og gerast Gorgoroth-grúppía. Ég komst yfir ímeilið þeirra, og ætla að reyna að koma af stað vinatengslum okkar á milli. Bjóðast til að redda honum blóði að drekka á morgnanna, kemba makkann á honum og svona. Hver vill koma með?

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Ég er þunnur og nenni eiginlega ekkert að blóka.
Ég vil þó að þið vitið að ég er að sigra heiminn hægt og rólega þessa dagana.
Morgundagurinn verður frábær, fullur af hamingju, gleði og nekt.

Götuljósin í borginni (allavegana hérna í vesturbænum) eru öll slökkt af einhverjum ástæðum. Ég notaði því tækifærið og fór í langan labbitúr áðan.
Borgin er miklu skemmtilegri þegar ljósin eru slökkt. Ljós er líka ofmetið fyrirbæri. Guð hefði alveg mátt eyða orkunni í að skapa eitthvað annað fyrsta daginn. Eins og t.d. túnfiskssalat. Eða franskan rennilás.

Að lokum birti ég hér mynd af Mr. Rogers. Hann var ljúf sál. Njótið vel.


Þessi færsla var sett inn á slaginu 21:03.

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Jaaaaa!

Á morgun á ég að vera með framsögu í Hugmyndasögunni um Friedrich Nietzche:



Þetta yfirvaraskegg er náttlega alveg stórfenglegt. Ef ekki bara yfirnáttúrulegt. Ég hafði hugsað mér að fjalla um hugmyndina hans um ofurmennið og viljan til valds, en er að spá í að ditsa það og fjalla bara um mottuna hans, og þá kenningu mína að það hafi vaxið hár úr munninum á honum og þessvegna hafi hann misst vitið.

Annars fór ég í fótbolta í gær ásamt Jóa Palla, bróður hans og vinum hans, og það kom mér á óvart hversu herfilega lélegt úthald ég hef þessa dagana. Þetta var alveg þriggja kortera törn og ég byrjaði vel, en batteríið kláraðist hjá mér á fyrstu þrem mínútum. Svo gáfu lungun sig, ég fór í blackout og ég man voða lítið eftir það. Kannski maður fari að huga að því koma sér í form....
....
not!

Lög dagsins eru tvö :
Nick Cave - Into My Arms
The Birthday Party - Nick the stripper

Það er mjög fyndið að hlusta á þessi lög hvert á eftir öðru og maður trúir varla þetta sé sami söngvarinn í lögunum, en The Birthday Party var gjörsamlega vitfirrt hljómsveit sem Nick Cave var í á 9. áratugnum.
Pabbi og mamma fóru einverntíman á tónleika með þeim þegar við bjuggum í köben og ég var nýfæddur, en fóru heim rétt áður en tónleikarnir byrjuðu því þau höfðu svo miklar áhyggjur af mér (ég var mjög veikur á þessum tíma). Ég skemmdi s.s. Birthday party tónleika fyrir pabba og mömmu. Haha.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Enn gengur erfiðlega að finna æfingarhúsnæði, en eins og fólk veit förum við að flytja á næstu vikum og neyðumst því til að finna annan stað en bílskúrinn til að framleiða okkar óhljóð og sarg.
Það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að það hefur ekkert af viti verið að gerist í þessu tónlistarveseni hjá okkur þessi sex ár sem við erum búin að vera að stússast í því (Auður reyndar bara þetta eina ár), fyrr en núna á undanförnum mánuðum. Og þá þurfum við einmitt að vera að flytja. Reyndar urðu innbrotsraunir mínar til þess að ég flutti allar græjurnar upp í herbergi í einhverju paranojukasti... ég ætla þó aftur með það út næstu helgi þar sem við erum líklega að fara að taka upp, en þá mun ég líka eins og áður sagði, sofa í skúrnum alla helgina með nátthúfu vopnaður frethólki.

Eftir sirka 2-3 vikur verð ég fluttur úr foreldrahúsum, og orðinn meðleigjandi þeirra Krumma og Loru einhversstaðar í miðbænum. Mér finnst það undarlegt, en það er líklega kominn tími á það. Þessa dagana er ég engu að síður í þeim fasa að steyta hnefann út í loftið minnst fimm sinnum á dag, og öskra "hvað varð um þig, ó glataða æska" með tárin í augunum. En það gengur vonandi yfir.

Annars ætla ég að vera sammála henni systur minni varðandi bolludag og bollur. Það er reyndar ein og ein bolla sem er ágæt, en almennt séð eru þær ekkert sérstaklega góðar.
Í dag er svo sprengidagur, sem er með alfáránlegri fyrirbærum alheimsins. Dagur helgaður því að borða sem mest af einhverjum þriðjaflokks mat. Þetta er eins og að helga heilan dag því að hlusta á eins mörg lög með Ríó Tríóinu á einum degi og maður mögulega getur. wtf?

Að lokum. Heimspekihúmor er almennt ekki að mínu skapi, en þetta finnst mér alveg ógeðslega fyndið. "And here come the Germans now, led by their skipper, Nobby Hegel."

ps. djöfull er Craig Bellamy mikill fáviti ahhahah

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Það hryggir mig að Eiríkur Hauksson skuli vera á leiðinni til Helsinki, einfaldlega því þá fær maður að öllum líkindum ekki að njóta rauðra lokka hans og silkimjúkrar norsku í þessum stjarnfræðilega ömurlega "Júróvisjonsérfræðingaþætti". Pabbi kom samt með þá ágætu hugmynd að við sendum Dr. Gunna í staðinn. Jafnvel með valdi ef hann hefur ekki áhuga á því. Þá mun fólk líka halda að það búi bara rauðhært fólk á Íslandi.

Annars átti sá hörmulegi atburður sér stað í fyrradag þegar ég var á kaffihúsi með Krumpa Klunnaputta og Loru, að síminn minn til næstum því þriggja ára lét lífið. Ég fékk hann í tvítugsafmælisgjöf á sínum tíma og hann þjónaði mér vel og lengi. Mörg dramatísk símtöl og sms-samskipti áttu sér stað í gegn um hann, þannig að ég er að vonum mjög sorgmæddur...


Mér þykir það líka grimm örlög að hann skyldi hafa verið limlestur á svona groddalegan hátt. Hann átti skilið að deyja með mun meiri reisn t.d. í svefni eða í skíðaferðalagi með fjölskyldunni sinni. En þetta er nú svosem skiljanlegt þar sem hann var að komast á níræðisaldurinn í símaárum, og var búinn að eyða undanförnum mánuðum í að hrynja í sundur strategískt. En ég mun sakna hans.

Æjá, og ég er búinn að ákveða að bæta einum degi við bloggviku mína. Einn af mínum trylltu aðdáendum lýsti í gær yfir óánægju sinni með það að ég bloggaði bara tvisvar í viku. En Egill er maður fólksins þannig að ég ákvað að bregðast við.

Lag dagsins: The Shins - Australia

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Ég var að breyta tempelateinu á blogginu áðan, og uppgötvaði að það er dálkur þar sem stendur á "Delete your blog" og svona blár takki sem stendur á "Delete this blog." Með öðrum orðum er self-destruct takki á blogginu mínu.
Mér finnst eiginlega bara þægilegt að vita af því, ef svo skyldi fara að allt færi á einhvern hátt til fjandans hérna. Ég vildi að það væri self-destruct takki á fleiri hlutum í lífinu. T.d. húsinu mínu, gítarnum mínum, systkinum mínum, sjálfum mér o.s.frv.

En já.. það er einhver aulahrollur búinn að sitja fastur í mér frá því um helgina. Ég skil ekki afhverju. Eða hvað?


Að lokum... af kómentum við síðustu færslu að dæma þá finnst fólki greinilega voða fyndið að lesa aulasögur af mér. Þannig að ég læt hér eina fylgja.

Ég og Kiddi vorum s.s. á djamminu og vorum með gegnumgangandi þema það kvöldið að nota vondar og ófyndnar pikköpplínur á heimskulegum/óviðeigandi augnablikum og flissa síðan að því.

Kiddi: "Hey Egill, farðu og spurðu barþjónin hvort hún komi hingað oft *fliss*"

Egill: "*fliss* Ókei maður *fliss*"

Egill: "Sæl ljúfan, kemuru hingað oft?"

Barstúlka: "Ha? Já ég vinn hérna. Ég er hérna svona tvisvar í viku en fylli stundum inn í ef það vantar fólk. T.d. ef það er einhver veikur eða þannig. Afhverju spyrðu?"

Egill: "...........já. ókei..... nei ég var bara forvitinn...."

*þögn*

Egill: "Heyrðu við sjáumst þá bara."

og svo gekk ég the walk of shame aftur að borðinu mínu.


....aulahrollur segiði?

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Hérna eru orðaskipti sem ég átti við einhverja stelpu um helgina, sem ég vann með fyrir nokkrum árum.

Egill: Hæ gaman að sjá þig
Stelpa: Já sömuleiðis. Það var leiðinlegt að þú skyldir hafa verið rekinn af sambýlinu.
Egill: ...ööö ég hætti nú bara að vinna þar. Ég var ekkert rekinn...
Stelpa: Já eða það.
Egill: .....

Hvernig túlkar maður þetta? Er ég svona rekanlegur?

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

ég fæ allt í einu æpandi löngun til að læra frönsku... það opnar líka möguleika ef ég vill læra heimspeki úti... hver er memm?

Annars hef ég ákveðið að stela hugmyndinni hennar Loru og hafa bloggfærslur alltaf reglulega. Ég mun því skrifa færslur síðdegis á sunnudögum og miðvikudögum héðan í frá. Í dag er fimmtudagur þannig að þetta er ekki alvöru færsla. Ef ég stend ekki við þetta megiði koma heim til mín og rassskella mig.

lag dagsins: Architecture in Helsinki - Maybe You Can Owe Me
Ég tók mig loksins til og uppfærði linkalistann minn. Hann er frekar fátæklegur... en jæja.

In other news, löggan er að sögn búin að finna restina af dótinu mínu :)

Ég fer niðrá stöð á morgun að tékka á því.

Lag dagsins: Arcade Fire - Black Waves/Bad Vibrations

ps. þetta var frekar glötuð færsla.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Koddaslagur í bíómyndum/auglýsingum er með fáránlegri fyrirbærum sem ég veit um, og reitir mig til reiði. Fólk hoppandi í rúminu hjá sér að berja hvort annað með koddum, og í hvert einasta skipti rifnar svo koddinn og fjaðrirnar fara út um allt, en samt heldur fólkið áfram að slást, fullkomlega hamingjusamt með lífið..
Afhverju er það ennþá svona ánægt? Það eru komnar fjaðrir út um allt og það á eftir að eyða miklum tíma og púli í að ryksuga og ganga frá þegar þessum bjánaskap er lokið.. og í hvaða tilgangi? Svo fólkið gæti farið í einhvern "slag" sem enginn getur í raun unnið (nema ef hann endar með dauða) og hefur nákvæmlega ekkert upp á sig? Þetta er án gríns e-ð sem hefur böggað mig frá því ég var barn.. Vitleysa segi ég.. ég mun banna börnunum mínum að horfa á svona myndir.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Úff.. hádramatísk færsla hér á undan. Ég verð að velja þær vel, því ég hef alltaf haft þá reglu að það verði í mesta lagi ein þannig á hverju ári, þannig að þið sjáið ekki fleiri svona í bráð...

Allavegana er boðskapur færslunnar fyrir ykkur gott fólk, að maður á (að mínu mati) að reyna eins og maður getur að taka eitthvað jákvætt úr öllum súrleika sem maður lendir í um ævina (svo lengi sem það er ekki eitthvað alltof öfgakennt), í staðinn fyrir að vera að naga sig yfir því að eilífu og fussa og sveia það sem eftir er (Maður sér þannig oft gerast)... maður getur ekki breytt fortíðinni, en maður ræður því sjálfur hvernig maður sættir sig við hana. Ég hef mikið reynt að miða við það undanfarið, og ég held að það hafi mikið að segja um það hvort maður verði yfir höfuð hamingjusamur eða ekki, þ.e.a.s. hvernig maður lítur aftur á ævi sína.
Ef maður fer rangt að gæti maður bara endað sem gamall og bitur kall sem hefur ekki gaman að neinu. Jafnvel ekki Matlock! og hvað hefur maður þá? Ekki neitt.

lag dagsins: Clap Your Hands Say Yeah! - Some Loud Thunder

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Gleðilegan sunnudag!


Í dag á ákveðin manneskja sem ég þekki/þekkti afmæli. Ég er reyndar ekki búinn að tala við hana í háa babars tíð og það gæti svosem verið að hún sé hætt að skoða þetta blogg, but no matter. Ég ákvað samt að gera svona afmælisfærslu.

Samskipti okkar voru á sínum tíma mjög svo sveiflukennd, aðallega sökum sérkennilegra aðstæðna, og hlutir á milli okkar enduðu að lokum líklega eins ömurlega og þeir hugsanlega gátu... Það mátti rekja til samspils almennrar heimsku okkar beggja og annarra þátta. Við heilbrigðari aðstæður hefðu hlutirnir eflaust þróast á mun heppilegri hátt, en svona er þetta nú bara stundum, og lítið hægt að velta sér upp úr því lengur.
Eftirá að hyggja, þá er það sem ég kýs hinsvegar að muna frá þessum tíma það þegar allt var í góðu hjá okkur. Nokkrir mánuðir sem ég eyddi með einstaklega vel gerðri og indællri manneskju sem ég tengdi rosalega vel við, og sem var mjög svo gaman að vesenast með. Ég vil líka halda að það hafi verið gagnkvæmt. Þrátt fyrir að þetta hafi verið tiltölulega stuttur tími, þá var hann þó mjög sérstakur í mínum huga af mörgum ástæðum, og það eru allskonar hlutir tengdir honum sem gleðja mig þegar ég hugsa til baka, og sem ég á eftir að muna um ókomna tíð. Ég er mjög svo þakklátur fyrir það.

En þessi manneskja er svosem ekki fullkomin frekar en nokkur annar, og undir lokin gerði hún alveg stórkostlega bjánalega og særandi hluti sem ég er ekki einusinni viss um að hún átti sig ennþá á sjálf. Hlutir sem, svo maður sé nú soldið dramatískur, höfðu jafnvel bara áhrif á hvernig ég hegða mér í samskiptum við fólk í dag. Sem er líklega bæði gott og slæmt, en það er efni í aðra færslu (og sjálfshjálparbók, ef út í það er farið)...

En þrátt fyrir það, þá tel ég mig ennþá þekkja hana betur en flestir (nema hún sé gengin í sértrúarsöfnuð eða eitthvað), og ég veit að hún er að upplagi með einstaklega gott hjartalag. Ég á því erfitt með að vera fullur af einhverri reiði og biturð til lengri tíma litið, enda er voða lítið um slíkt hjá mér í dag.
Og þó það megi kannski líta á þetta í dag sem stuttan og skrautlegan kafla í ævi okkar, sem hafði því miður frekar súran og tilgangslausan endi, þá þykir mér þrátt fyrir það ennþá ofsalega vænt um hana, og ég sakna hennar á hverjum degi.
Einhverjum finnst það kannski undarlegt... en sama er mér. Þetta er góð og meinlaus tilfinning sem gerir mig glaðan, og ég hef því engan sérstakan áhuga á að losna við hana.
Þannig er ég nokkuð viss um að ég eigi eftir að muna eftir afmælinu hennar næstu 60 árin, eða alveg þangað til heilinn á mér nennir bara að muna hluti sem tengjast ættfræði, hægðum og Matlock.

Allavegana, til hamingju með afmælið ef þú lest þetta jó.

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Jæja enn og aftur kemst ég í svona stubbagrein í blaðinu.. (bls. 12 í fréttablaðinu í dag).. ég klippi það út og set hjá greininni sem kom þegar það var ráðist á mig (sjá færslu 24. apríl) um árið..
ég er búinn að vera alveg sérlega heppinn í gegn um tíðina þegar kemur að einhverju svona kjaftæði.. ég sé alveg fyrir mér næsta skiptið...
"Maður var á gangi um vesturbæ Reykjavíkur þegar hann varð fyrir því óláni að flygill féll á hausinn á honum. Á leiðinni upp í sjúkrabíl kom trúður og slengdi rjómatertu í andlitið á honum. Svo missti hann niður um sig buxurnar."
Þrátt fyrir þetta eru þessi tvö mál sambærileg að því leyti að ég slapp furðuvel í bæði skiptin, þökk sé einhverjum mini-kraftaverkum.. sekúndum áður en ég er barinn í klessu af einhverjum hóp kemur bæði securitasbíll og keyrir inn í þvöguna, og mamma kemur hlaupandi út. Og þegar hljóðfærunum mínum er öllum stolið, þá finnast þau nánast um leið í einhverju hreysi fyrir ofan. Maður getur ekki annað en verið ánægður með það.

Annars er ég ennþá soldið eftir mig eftir þetta. Er að vega og meta hvort ég eigi annaðhvort að vera svekktur yfir því að það sé ekki ennþá búið að finna græjur uppá 100.000 kall, og vera pirraður yfir því hversu léleg löggan er búin að vera að láta mann vita hvað sé í gangi o.s.frv. eða vera yfir mig þakklátur fyrir að allt mikilvægasta dótið hafi fundist nánast samstundis, og vera rosalega ánægður með löggurnar tvær sem komu hingað og hvað þær leystu málið á smekklegan hátt. Ég hallast að síðari kostinum.

lag dagsins: Menomena - Wet & Rusting