Kærleiksland

Trúarlega bloggið. Færslur þrisvar í viku, á sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum kl. 21:03

mánudagur, desember 14, 2009

Ég hef ákveðið að fara að ráðum Jens hins vitra. Hann ætti að vita hvað hann er að tala um, enda barnaði hann konu.

Ég flyt mig því um set með allt mitt færsluhafurtask í fyrsta skipti í 7 ár og 4 mánuði.

Nýja bloggið má finna á http://nailthesnail.com . Af einhverjum ástæðum virkar ekki að skrifa www., en það þykir mér asnalegt.

Bless.

sunnudagur, desember 13, 2009

I. Ég hef gríðarlega löngun til að hressa aðeins upp á þessa síðu, gera hana hressilegri og óbældari, henda jafnvel inn linkum hjá fólki sem mér finnst skemmtilegt. Ég vil ekki færa mig frá blogspot nema ég geti fært með mér allar færslur frá upphafi.

II. Ég er búinn með fyrstu önnina í mastersnáminu mínu (er í þjóðfræði) og er bara furðusáttur. Er betur og betur að skilja út á hvað þjóðfræði gengur og er mjög hrifinn af því. Ég er sérstaklega ánægður með þann grunn sem heimspekinámið hefur gefið mér í þeim efnum, sem kemur fram þannig að mér finnst það gefa mér ákveðna jarðtengingu. Að auki finn ég í fyrsta skipti hjá mér einhverja löngun til að tjá mig um þjóðfélagsmál, og að ég hafi ákveðna afstöðu til lífsin sem ég get miðað mig við.

III. Annars verður janúar aldrei þessu vant frábær mánuður. Það allra besta er að sjálfsögðu að ég er að verða frændi þar sem systir mín er að eignast barn, en að auki er Lost að byrja aftur, sem mun ljá lífi mínu skammtímatilgangi í allavegana 5 mánuði. Svo förum við að huga að plötuútgáfu og það verður stuð. Geri ráð fyrir því að allir sem lesi þetta mæti á útgáfutónleikana sem verða vonandi í febrúar. Vúú.

Lag dagsins: Fuck Buttons - Surf Solar

laugardagur, nóvember 21, 2009

Er of latur til að tuða almennilega um þetta, en svona væl fer bara almennt í taugarnar á mér. Menntskælingadrykkja já takk!


Banna ætti partí fyrir böll

Breyta þarf skipulagi á skemmtanahaldi framhaldsskólanna segir Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi, sem gagnrýnir það svigrúm sem gefið er til drykkju fyrir skemmtanir sem tengjast skólunum.

Valgerður hefur starfað innan framhaldsskóla og segir að yfirmenn skóla ættu að íhuga að breyta þeirri stefnu að leyfa heimapartí fyrir böll. Fyrir árshátíðir fari nemendur til að mynda iðulega út að borða en í stað þess að ballið hefjist strax að loknu borðhaldi sé gefinn tími til heimapartís.

Þessa venju þurfi að endurskoða, ætli menn að draga úr unglingadrykkju.

Í frétt Fréttablaðsins í gær kom fram að drykkja unglinga ykist um 140 prósent frá vori tíunda bekkjar til fyrsta haustmisserisins í framhaldsskóla.- sbt

http://www.visir.is/article/20091121/FRETTIR01/866038388

föstudagur, október 30, 2009

Gallinn við að flytja er að það tekur mig alltaf nokkrar vikur/mánuði að manna mig upp í það að sækja um húsaleigubætur. Það er alveg dágóður skerfur af geðheilsunni sem tapast við vesenið sem felst í því, þökk sé óendanlegu bjúrokrasíu-blæti íslendinga.
Til að fá húsaleigubætur þarf maður að redda "löggildum skjalapappír", finna draslið á netinu og prenta það út, gera einn samning á þannig og annan á venjulegan pappír, gera fyrstu tilraun til að fara til sýslumanns, (hún heppnast aldrei þar sem þau finna alltaf eitthvað sem vantar), redda því sem þarf að redda (í þessu tilfelli að láta leigusalann skrifa undir einhverja staðfestingu á að sá sem bjó í íbúðinni á undan mér sé fluttur), fara með það aftur, Bíða í tvo daga, gera fyrstu tilraun til að fara fara í þjónustumiðstöð vesturbæjar, fara uppí HÍ og trufla Rikke í verklegum efnafræðitíma í þeim tilgangi að fá hana skrifa undir eitthvað gjörsamlega tilgangslaust plagg um að hún vilji líka húsaleigubætur.
Allt þetta fyrir einhvern skitinn 18.000 kall á mánuði. Svo ekki nóg með það heldur eru þau alltaf eitthvað að fikta í því og áætla á mann e-ð kjaftæði og til að sýna fram á að maður sé blankur námsmaður þarf maður að ganga í gegn um álíka mikið vesen aftur, ef ekki meira.

Þetta er í þriðja skipti á rúmu ári sem ég þarf að standa í þessu, og ég væri líklega löngu búinn að svipta mig lífi ef ekki væri fyrir þá afþreyingu sem felst í því að fara á svona þessa staði og fylgjast með úr fjarlægð hvernig þetta fúnkerar allt. Starfsfólkið er í 99,9% tilvika kerlingar á aldrinum 40-60 ára, og í hvert skipti sem maður fer sér maður í lúgunum við hliðina á sér fólk að reita hár sitt yfir kjaftæðinu sem þau þurfa að þola, meðan kellingarnar standa ógeðslega stífar á svipinn, fyrir löngu búnar að koma sér upp einhverjum nöldur-varnarmekanisma þannig að ekkert bítur á þær. Voru eflaust metnaðarfullar og liðlegar fyrstu tvær vikurnar í starfi þangað til kerfið, og þetta endalaus pappírsflóð saug úr þeim allan vilja til að lifa. Í hvert skipti sem ég þarf að standa í þessu þá dey ég örlítið inní mér, en ég þakka bara fyrir að þurfa ekki að vinna við þetta. Oj bara.

Pulp eru annars alveg að gera það fyrir mig þessa stundina..

miðvikudagur, október 28, 2009

Jæja ég er drulluveikur og ætla því að blogga.
Platan er gott sem tilbúin, eina sem er eftir er að setja rétt bil á milli laganna. Jibbí! Fínt að gömul lög sem eru búin að hanga yfir manni í nokkur ár eru loks úr vegi. Nú getur maður bara farið að gera eitthvað nýtt.
Annars er ég hryllilega hugmyndasnauður í dag, kvefið líklega komið upp í heila, lofa að skrifa eitthvað skemmtilgra á morgun.

þriðjudagur, september 29, 2009

Flateyri er afar huggulegur staður
Hey vill einhver koma í afmælispartí næstu helgi?

mánudagur, september 28, 2009

Ég er að horfa á senu úr Bad Santa þar sem John Ritter og Bernie Mac eru að tala saman. Þeir eru báðir dánir.

Tilviljun?
Úff.. fyrst ég er byrjaður í HÍ, búinn að dusta rykið af heilanum á mér og farinn að skrifa dót, þá er kannski ágætis hugmynd að ég byrji aftur að skrifa hérna af einhverju viti?

Nokkrar staðreyndir um undanfarnar vikur:
1. Ég er búinn að taka upp plötu með hljómsveitinni minni. Hún er komin í mix og verður líklega tilbúin í október/nóvember. Ekki vitað hvenær hún kemur út samt.
2. Við spiluðum á Nasa á föstudaginn og fengum svo fína umsögn í Fréttablaðinu í dag. Jibbíjei.
3. Næta færslan mín verður nöldurfærsla
4. Ég er að taka master í þjóðfræði
5. Ég átti afmæli í síðustu viku. Það var gaman. Ég og Hrafn ætlum kannski að halda upp á það um næstu helgi.

sunnudagur, ágúst 16, 2009

I. Þegar ég var unglingur þótti Scarface rosa töff mynd. Tony Montana var aðalgaurinn, og allir vildu vera töff gangsterar eins og hann. Myndin er líka í hávegum höfð meðal amerískra rappara (eða var það allavegana á síðustu öld) og það er oft samplað úr myndinni í einhverjum lögum. Mér finnst það svolítið skrýtið þegar litið er til þess hvernig fer fyrir aðalpersónunni að lokum. (hér koma spoilerar) Konan hans fer frá honum, hann drepur besta vin sinn í einhverju frekjukasti, systir hans deyr í framhaldi af því, og svo deyr hann sjálfur eftir haglabyssuskot í bakið, óhamingjusamur, útúrkókaður og sorglegur lítill karl. Vill einhver útskýra fyrir mér hvað það er í mannlegu eðli sem gerir það að verkum að fólk horfir framhjá þessari frekar niðurdrepandi niðurstöðu myndarinnar, en einblínir frekar á það að Tony Montana sé svo karl í krapinu sem láti engan vaða yfir sig og þannig eigi maður sko að vera?

Ekki aðeins það heldur er Tony Montana frekar leiðinlegur gaur. Yfirgengisseggur sem frekjast þar til hann fær það sem hann vill, og segir ekki einusinni sérstaklega fyndna brandara. Þetta er svona gaur inn á næsta borði á veitingastað sem hefur ógeðslega hátt og fer í taugarnar á öllum í kring um sig, og ég held að það eina sem forði áhorfendum frá að hata hann bara með öllu er hvað Al Pacino er óheyrilega sjarmerandi leikari.

Ég hef líka spáð í hver boðskapur myndarinnar sé.. er það að glæpir borgi sig ekki því þá fær maður haglabyssuskot í bakið, eða að kapítalismi sökki því frekjudollur og leiðindaskjóður eins og Tony Montana þrífist vel í þannig samfélagsskipulagi? Í byrjun myndarinnar er Tony Montana mikið að tuða yfir því hvað Castro sé mikill asni, en hvað Bandaríkin séu frábær, því tækifærin til að vera frekjudós og asni séu á hverju strái. Maður spyr sig!

föstudagur, júlí 31, 2009

Ég er blogg-hugmyndasnauður eins og er, en langar ennþá að blogga. Ég ætla því að gera eins og hugmyndasnauðir og latir popplistamenn nútímans gera þegar þeir endurvinna gömul lög og setja þau í nýjan (og ömurlegan) búning.
Nema ég ætla ekki að setja neitt í nýjan búning, heldur bara að endur-pósta gamlar færslur af handahófi. Hér er færsla frá 28. nóvember 2005 þegar ég var í einni af minni fjölmörgu tilvistarkreppum:

"Vá.. þegar maður er krakki þá gerir maður sér ekki grein fyrir hvað fullorðinsárin munu verða eintómt vesen... ég sakna þeirra daga þegar hápunktur tilverunnar var Nintendo tölvur, afmælispakkar og nammi á laugardögum

Það er ekki nóg að vera samviskusamur, góður og reyna alltaf að breyta rétt til að komast undan erfiðleikum í lífinu. Maður getur samt alltaf orðið fyrir bíl á leiðinni heim úr vinnunni og lamast fyrir neðan háls. Jesú var t.d. fínn gaur, og hann var negldur við spýtu.

Svo er það líka miserfitt fyrir fólk að sætta sig við sjálft sig, sína kosti og sína galla. Sumir gefast upp og hætta að búast við nokkru góðu úr lífinu.
En ég held að þeir sem reyna alltaf að leggja sig fram við að sættast við sjálfa sig, og njóta þess sem þeir hafa, sama hvaða hæðum þeir kunna að ná í sjálfsfyrirlitningu og sjálfsvorkunn á lífsleiðinni, séu ólíklegri til að henda sér fyrir lest en hinir.
Stundum verður maður samt að vera óhræddur við að þiggja hjálparhönd. Það reynist sumum erfitt.
En það góða við það, er að það er yfirleitt lítið mál þegar það er kannski löngu búið að traðka stolt manns og sjálfsmynd niður í jörðina.

Fuglinn okkar hann Dilbert var t.d. e-ð ósáttur við líf sitt, og ákvað að fljúga út um gluggann.
Hann er að öllum líkindum dauður núna.
Ég sakna hans."

Þar hafiði það.

föstudagur, júlí 03, 2009

Jæja ætli ég verði ekki eins og flestir að tjá mig um Michael Jackson.. leiðinlegt að hann er dáinn og allt það, enda mikill meistari. ég verð að segja að ég hálfvorkenndi honum þessi síðustu ár, og þessar barnamisnotkunarásakanir sem hann varð alltaf fyrir þökk sé m.a. aulum eins og Martin Bashir fóru alltaf í taugarnar á mér. Eftir að hafa séð viðtöl þar sem hann tjáir sig sjálfur um samskipti sín við börn, hvernig börn og annað fólk sem þekkti hann vel talaði um hann, og hvernig börn létu í kring um hann, þá var það frekar augljóst að það var aldrei neitt vafasamt í gangi. Það sá það hver maður (sem er ekki hálfviti) að hann var bara frekar einfaldur gaur sem gekk í barndóm.
Og ég skil hann sosem vel; sjálfur hef ég unnið mikið með börnum og finnst börn almennt yndisleg (fyrir utan einstaka leiðindaskjóður). Ef ég væri moldríkur poppari sem vissi ekki hvað ég ætti að gera með aurana, þá væri það að byggja risastóran skemmtigarð, bjóða fullt af krökkum þangað og hanga með þeim allan daginn örugglega mjög ofarlega á listanum hjá mér yfir fyndna hluti til að spandera peningum í (fylgir fast á hæla þess að kaupa sér fótboltaliðið Scunthorpe, og að ráða lúðrasveit til að fylgja mér hvert sem ég færi). Og kommon.. ef hann var að fá hundruðir barna til sín þangað, þá var það alveg bókað að einhverjar fávitar myndu sjá gróðavon og fá barnið sitt til að ásaka hann um misnotkun.. enda viðurkenndu þau það flest á endanum.
Annars fannst mér það alltaf frekar sorglegt og glatað.. hvernig fjölmiðlar og frethanar eins og Martin Bashir gátu afskræmt og gert tortryggilegt eitthvað sem var bara frekar krúttlegt, og virtist aðallega knúið áfram af góðmennsku og sérvisku. En hann hefði svosem geta sagt sér sjálfur hvað myndi gerast..

laugardagur, júní 27, 2009

I. Ég er búinn að fylgjast vel með þessu Icesavemáli, og það er að myndast mikil togstreita hjá mér milli raunsæis og réttlætiskenndar minnar. Ég sveiflast eiginlega á milli tveggja sjónarmiða:

Sjónarmið 1: Ég vil að þessir samningar verða drifnir í gegn svo við lendum ekki í enn meiri vandræðum og að enn ein stjórnarkreppa bætist ofan á allt vesenið. Þrátt fyrir augljóst óréttlæti, þá er þetta skásti kosturinn í stöðunni, og illu er best af lokið. Rausið í íhaldinu og framsókn fer í taugarnar á mér og maður tekur ekki mark á nokkru sem kemur úr þeirra munni. Mér finnst reyndar að það ætti að vera skammakrókur á Alþingi þar sem þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar geta bara setið, haldið kjafti og skammast sín allavegana næstu tvö árin. Og hvernig var það annars, voru það ekki sjálfstæðismenn sem lýstu því yfir í kjölfar hrunsins að við myndum borga þetta? Og voru ekki komin drög að samningum í þeirra stjórnartíð, sem eru alls ekki svo ólíkir þeim sem liggja núna fyrir?? Hvað er það nákvæmlega sem þið eruð að leggja til að verði gert, helvítis hræsnararnir ykkar? Reynið bara að þegja og sýna smá auðmýkt.
Og Sigmundur Davíð í guðanna bænum haltu kjafti, helvítis lýðskrumarinn þinn.

Sjónarmið 2: Við borgum ekki þennan andskotans pening því þetta er ósanngjarnt og óréttlátt sama hvernig litið er á það. Afhverju eiga ég og afkomendur mínir að borga einhverjar stjarnfræðilegar skuldir sem einkareknir bankar stofnuðu til? Bankar sem voru knúnir áfram af einhverju gildismati og hugmyndafræði sem fer þvert gegn öllu sem ég trúi á í lífinu??? Á meðan einhverjar frekjudollur í jakkafötum mökuðu krókinn í áraraðir sat ég bara heima og skammaðist yfir þessu. Ég samþykkti aldrei þessa fávitavæðingu, né nokkur annar sem ég þekki. Og svo allt í einu því allt fór til andskotans hjá þeim þá á ég að redda þeim???? Og afhverju í fjandanum var ríkisábyrgð á þessu öllu saman?? Ég vil að þessir samningar verði felldir. Mér er drullusama þó við einangrumst í alþjóðasamfélaginu. Þetta "alþjóðasamfélag" er hvort sem er ömurlegt og rotið að innan, og ég vill ekkert hafa með það að gera. Farið bara í rassgat, ég ætla að flytja út á land og byrja að rækta gulrætur.

Ég hef hallast að sjónarmiði 1 undanfarna daga, en þessa stundina er mjög auðvelt að sannfæra mig um annað, þannig að ef við viljið megið þið endilega reyna það.

fimmtudagur, júní 25, 2009

I. Við tökum kannski upp plötuna á Flateyri. Jibbí!

II. Ég er að fara að passa tvo naggrísi í tvær vikur. Jibbí!

III. Ég horfði á einhvern raunveruleika þátt um hunda og eigendur þeirra áðan. Það var líklega með því fyndnara sem ég hef séð. Hádramatískasta móment kom í lokinn þegar einn dómaranna var að skamma einn þáttakendann fyrir að klæða hundinn sinn í kjól. En eigandinn stóð sko hörð á sínu, hundurinn hennar var einfaldlega í kjól svo hún myndi ekki sólbrenna. Svo fór hún að grenja.

IV. Ég var að taka minn síðasta "bloggrúnt" frá því einhverntíman á síðasta ári og svona 80% af þeim bloggurum sem ég skoðaði á sínum tíma eru hættir þeirri iðju. Ég kenni Facebook um þessa hnignun, og reyndar bara um flest sem slæmt er í heiminum. En það er þó lífsmark með sumum og ég ætla að reyna að koma upp svona linkalista á þá.

fimmtudagur, júní 18, 2009

I. Mér leiðist átök við fólk og slíkt fer alltaf illa í mig. T.d. að rífast við vini eða fjölskyldumeðlimi, kvarta yfir lélegri þjónustu einhversstaðar, skammast í vinnufélaga, kvarta yfir hávaða í næsta húsi og eitthvað þar fram eftir götum. Ég get átt í slíkum samskiptum þegar mér finnst ástæða vera til, en það gerir það yfirleitt að verkum að ég er í pirruðu skapi það sem eftir lifir dags og hugsa ekki um annað. Þá gildir einu hvort ég "hafði betur" eða ekki, eða hvort einhver ágreiningur hafi verið leystur. Maður spyr sig hvaða erindi ég hef eiginlega á þessa jörð þar sem 50% af samskiptum fólks virðast ganga út á þetta.

II. Afhverju er ógeðslegt svona sterkt orð? að segja að eitthvað sé "geðslegt" er ekkert sérstaklega merkingarþrungið en um leið og þetta ó er komið fyrir framan verður þetta orð mjög ógnvekjandi. Heimsku málvenjur.

III. Ég var að horfa á Scrubs þáttinn þar sem feita hjúkkan deyr. Stundum vildi ég óska þess að ég væri trúaður. Að hafa eitthvað haldreipi sem ég gæti haldið mér í, sama hvað bjátaði á. Að allt það ömurlega og van-geðslega sem eigi sér stað gerðist af einhverri ástæðu. Að öll vonbrigði lífsins eigi sér einhverja skýringu.
Ég held samt að allir trúi á eitthvað, annars væri ekki tæpast hægt að lifa. Það er samt líklega hættulegra að trúa á eitthvað sem finna má á þessari jörð. Því ef það bregst á einhvern hátt þá getur maður fátt annað gert en að skjóta sig bara í hausinn. Eins og t.d. nasistarnir í fjöldasjálfsmorðsmyndinni Der Untergang. Þeir trúðu á nasisma og þriðja ríkið, en þegar það fór allt til fjandans þá skutu þeir sig allir í hausinn (einn af öðrum í 146 mínútur). En ef maður trúir á eitthvað sem er ekki hægt að hrekja eða afsanna þá er maður nokkuð seif.

mánudagur, maí 25, 2009

I. Þegar ég flutti í vesturbæinn fyrir 13 árum þá voru u.þ.b. 9 sjoppur og smáverslanir í kílómetra radíus (Vesturbæjarvideo, Úlfarsfell, Grandavideo, Videospólan, Gerpla, Kveldúlfur, Setta, sjoppan hjá Melaskóla). Núna er þetta allt lokað og fukking Bónusvideo og 10-11 komið í staðinn fyrir allt. Glatað!

II. Ég komst inn í Þjóðfræði í háskólanum. Eins gott að þetta sé gott stöff.

III. Við fengum nýtt borðstofuborð um daginn. Jibbí! Mikið af matarboðum framundan.

IV. Svínkvef, kreppa og yfirvofandi heimsstyrjöld.

V. Ég vil óska ***** til hamingju með ** **** *** * *****. Ég veit að ***** á eftir að ***** **** *** ***** og að ***** á eftir að ***** ****** *****!

VI. Ég er með gamalmennahné.

VII. Upp upp mín æra og allt mitt geð

föstudagur, maí 01, 2009

I. Ég er hér með kominn á þá skoðun að þetta núverandi blogg-template mitt sé forljótt og að ég þurfi að breyta því. Ég er að spá í rauðu bloggi með hvítum doppum. Nú eða svörtu bloggi með fjólubláum doppum. Eða appelsínugulu bloggi með himinbláum doppum. Eða e-ð.

II. Ég breytti enn og aftur heima hjá mér. Á morgun förum við Rikke að kaupa borðstofuborð því ég við erum með matarboð á morgun. Svo hendum við því örugglega bara þegar matarboðið er búið. Hahahaha!

III. Ég er hættur á leikskólanum. Það var erfiðara en ég bjóst við, enda er erfitt að hætta á skemmtilegum vinnustað þar sem maður er vel liðinn. Ég var líka pínu klökkur þegar ég var að kveðja börnin. Börnin MÍN! *snökt*

IV. Arizona. Havalina.

þriðjudagur, apríl 28, 2009

Jæja.. Rikke er búinn að læra íslensku markvisst í ekki nema tvær vikur, og strax búin að skrifa sína fyrstu sögu. Hér er hún:

"Einu sinni var maður. Maðurinn vinnur á banki. Því miður var bankinn gjaldþrot, og maðurinn var að taka við mútur. Þessu var bjarnargreiði! Maðurinn fá blóðtappi. Núna situr hann á bekkur, borðar brjóstsykur, spilar blokkflauta og hugsar um brúðkaupsferðin sín."

ekki slæmt!

föstudagur, apríl 24, 2009

I. Á morgun ætla ég að kjósa, spila fótbolta, drekka vodka, spila á gítar, drekka meiri vodka og elda súpu. Svo ætla ég að syngja hani krummi hundur svín.

II. Vissuð þið að lagið sem er þekkt sem "tetrislagið" er raunar gamalt rússneskt þjóðlag um eitthvað að rússneskt dót?
Hér má heyra hinn rússneska Ivan Rebroff/Gunnar I. Birgisson baula það. þetta lag dansa ég við nakinn á hverjum morgni og geri auk þess hreyfingarnar við höfuð herðar hné og tær með.

III. Þessa stundina er ég að lesa Gyllta Áttavitann því Rikke skipaði mér að gera það. Hún er um einhverja stelpu og einhver dýr og einhvern Asríel sem er á þeirri skoðun að fræðimenn megi vera með skítugar hendur því þeir eru fræðimenn. Svo er einhver kona sem rænir börnum eða étur þau eða eitthvað. Það minnir mig á sögu sem ég heyrði einusinni en man ekki alveg.

IV. Í dag hlustaði ég á formenn stjórnmálaflokkana tala um dót í sjónvarpinu. Með öðrum orðum horfði ég á Ástþór Magnússon segja formönnum hinna flokkanna til syndanna. Áfram Ástþór.

V. Ég enda þessa færslu á brandara sem Frank sendi mér um daginn

A Christian, an Atheist, and a Jew walk into a bar.

They had several drinks and then went on their separate ways, but by this time their blood alcohol level was slightly elevated.

fimmtudagur, apríl 16, 2009

I. Ég bý ekki lengur einn.

II. Eftir tvær vikur hætti ég að vinna á leikskólanum og fer aftur á raunvísindastofnun. Svo tek ég líklega master í þjóðfræði í haust

III. Ég ætla að taka upp plötu í sumar.

IV. OM NOM NOM

fimmtudagur, apríl 02, 2009

Héðan í frá ætla ég bara að skrifa listrænar færslur. Færslur sem verða dýrmætur menningararfur eftir 700 ár. Áður en ég posta hverja færslu mun ég spyrja sjálfan mig "er þessi færsla nógu listræn"? Ef ekki fer hún á haugana.


ég ætla líka að skrifa
allar færslurnar

svona.

þriðjudagur, mars 31, 2009

Plötur i spilun þessa dagana:

Sonic Youth - Sister
Portishead - Third
Miles Davis - Kind of Blue
Walkmen - You & Me
Faust - Faust
No Age - Nouns
Roy Orbison - A Black and White Night
Vivian Girls - Vivian Girls
The Velvet Underground - Loaded

og þær eru allar frábærar. Nema kannski Nouns

þriðjudagur, mars 24, 2009

I. Ég er búinn að vera fukking veikur fukking þrisvar sinnum á rétt rúmum mánuði.. ég er ekki frá því að ég sé að fara að deyja.

II. ég er að hlusta á Patti Smith

III. Í gær fór ég í hláturyoga. Mér fannst það ferkar leiðinlegt. Ég hlæ nógu djöfulli mikið (er að reyna að draga úr því ef eitthvað er) án þess að ég þurfi að hlæja einhverjum gervihlátri í stórum hóp. Það er alveg nógu mikið af fyndnu dóti í heiminum.

IV.Ég vorkenni þessum gæja. Ef það er eitthvað sem bitur reynsla táningsáranna kenndi mér þá er það að ástarjátningar til stelpna eru í 99% frekar gagnslausar nema að eitthvað fylgi í kjölfarið (t.d. að maður reki tunguna ofan í kokið á þeim). Sérstaklega ekki ef hún fer fram á internetinu. Ef einhver vill hrekja þessa staðhæfingu mína er honum/henni það velkomið.

þriðjudagur, mars 17, 2009

Það getur verið ótrúlega hressandi að breyta húsgögnunum heima hjá sér. Þegar ég var krakkkki breytti mamma stofunni svona einusinni í mánuði. Manni líður frábærlega, eins og maður sé kominn í nýja íbúð í svona tvo daga. Ég er farinn að gera þetta mikið hérna heima, jafnvel þó íbúðin mín sé ekki nema svona 30 fm.

Ég er heví þurr í augunum.

Lag dagsins: TV on the Radio - Halfway Home

fimmtudagur, mars 12, 2009

Ég man þegar blogg var hressandi vettvangur fyrir spjall um ekki neitt. Núna er blogg orðið samnefnari fyrir nöldur. Það les heldur enginn blogg lengur, það eru allir komnir á þetta fjandans facebook. Flest af þeim bloggum sem ég las hér á mánuðum áður eru komnir í eyði og viðkmandi bloggarar eru bara e-ð að uppfæra statusinn sinn á facebook alln daginn. En sorglegt. Þetta skal sko ekki koma fyrir mig!

In other news, ég er kominn með jafnmikið hár og ég var með fyrir svona 5 árum. Jess!

miðvikudagur, febrúar 18, 2009

Maður á þrítugsaldri óskar eftir grind til að hengja þvottinn sinn á. Má vera keypt í Europris.
Djöfull söööökkar að vera veikur. Ég er samt ekki veikur lengur. Núna er ég frískur. Vá er árið 2009 komið? Ha?

lag dagsins: Klaus Schulze - Conphära

sunnudagur, febrúar 01, 2009

gisp!

jæja hvað segiði annars gott?

fimmtudagur, janúar 08, 2009

þriðjudagur, janúar 06, 2009

Í gær skrifaði ég fjórar innantómar færslur og er í fýlu því enginn kommentaði á þær.

Mér líður eins og ég sé 19 ára aftur.



Í dag hefst nýr dagskrárliður: Moggabloggsfyrirsögn/fréttatengingar vikunnar.

Sigurvegari vikunnar er enginn annar en Börkur Hrólfsson fyrir tengingu sína við fréttina "Vestmannaeyjabær með danska ferju í sigtinu":

"Þvílíkt rugl !"


Í öðru sæti þessa vikuna lendir Börkur Hrólfsson fyrir tengingu sína við fréttina "Jóhanna tekur fyrstu skóflustunguna":

"Hvílík vitleysa"

Í þriðja sæti lendir Börkur Hrólfsson fyrir tenginu sína við fréttina "Jesús fæddist 17. Júní":

"Enn ein moggalygin !"

Í fjórða sæti lendir Börkur Hrólfsson fyrir tengingu sína við fréttina "Frumvarp um launalækkun ráðherra":

"Hvílíkir andskotans aular !!"

Í fimmta sæti lendir Víðir Benediktsson fyrir tengingu sína við fréttina "Flokksforystan fái opið umboð":

"Mín afstaða er skýr"


Við hjá Kærleikslandi óskum þeim Berki og Víði til hamingju með árangur á sviði moggabloggunar og vonum að þessi viðurkenning hvetji þá til enn frekari dáða.

Hvernig er það, er enginn búinn að stofna hagsmunasamtök moggabloggara?

mánudagur, janúar 05, 2009

Egill Viðarsson skekur undirstöður samfélagsins!
Klukkan er 5:15 og ég var að enda við að skutla Rikke út á BSÍ. Lalalala fjöldfærslur tralalalaa
Fokk, þetta er svo innilega frelsandi að þurfa ekki að slá inn þetta helvítis securitytékk, fjöldabloggun, já takk!
ég er búinn að finna hlutfallslegt samhengi milli bloghnignunar minar, og þessu helvítis orðastaðfestingarbulli sem maður þarf að gera hér fyrir neðan færslugluggann. Sama hvað ég gerði það rétt þá kom af einhverjum ástæðum alltaf error í fyrsta skipti og ég þurfti því alltaf að slá þetta helvíti inn tvisvar.
Að skrifa bloggfærslu var því helvítis vsen á latur-internetnotandi mælikvarðann, g undirmeðvitund minni hefur greinilega verið nóg boðið. Núna er það þó farið og ég get látið gaminn geysa að nýju.

Áramótaskaupið fær 7,15 í einkunn hjá mér. Byrjaði sterkt og hafði sterka punkta, en fjaraði svolítið út. Nasdaq 8, Dow Jones 8,1, Indiana Jones 4.

Ég er búinn að enduruppgötva Pacman.

Á morgun geri ég síðbúna nýársfærslu.

Lag dagsins: TV on the Radio - Family Tree

mánudagur, desember 29, 2008

"Bloggendurkoman þín fær 3,2 í einkunn." -Krummi

sunnudagur, desember 21, 2008

Egill lýgur og lýgur og lýgur

Ég er kvefaður og þunnur.

Ég eignaðist ball-in-a-cup í gær

mánudagur, desember 15, 2008

Ég er búinn að vera á kvíðalyfi á undanförnum vikum sökum óþolandi arfgengrar kvíðaröskunar. Í dag gleymdi ég að taka það og tók þá fyrst eftir hversu mikil áhrif það hefur.

*felur sig undir borði´*

sunnudagur, desember 14, 2008

Botninn hefur dottið eitthvað úr bloggun hjá mér á undanförnum mánuðum. Ég harma það og vill reyna að breyta því. Kærleiksland má aldrei deyja. Til að koma mér í gang ætla ég að reyna að skrifa eina stutta færslu á dag. Sama hversu ómerkilegar þær verða. T.d. þessi.

mánudagur, nóvember 17, 2008

I. Fyrir rúmu ári skrifaði ég bloggfærslu þar sem ég hæddist að Axl Rose fyrir að vera frekar leim gaur og vísaði þar í viðtal við Kurt Cobain máli mínu til stuðnings. Núna var ég að sjá að piltur að nafni Alex Skúli Einarsson hafði rambað á umrædda færslu með því að gúgla setninguna "hata Axl Rose" og hafði skilið eftir komment sem hljóðar svo:

"hey well ég gæti ekki verið meira ósammála þér þar sem kurt cobain var sækó fífl sem samdii ömurlega tónlist og gerði rétt með því að skjóta sig en axl rose er geðveikur textasmiður sem er cool þá hann sé í ömmunærbuxum á sviði (sem enginn annar gæti gert og sammt verið cool) svo please farðu og litterly ríddu þínu egin andliti."

Fyrst og fremst vil ég hrósa Alexi Skúla fyrir að hafa skrifað undir fullu nafni, sem er líklega fátítt í þeim flokki blogg-kommenta þar sem viðmælanda er skipað að hafa mök við eigið andlit... en þýðir þessi hnífbeitta atlaga að orðum mínum annars ekki að ég sé núna officially orðin "umdeildur þjóðfélagsrýnir"?

II. Ég vil þakka þeim Brumma og Kraga fyrir eðalpartí á laugardaginn.

III. Fyrstu afleiðingar kreppunnar: það er hvergi hægt að fá almennilegan Ben & Jerrys ís.

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Það er ein auglýsing í sjónvarpinu þessa daga og vikur sem að fer virkilega í taugarnar á mér, en það er einhver kjötborðsauglýsing frá lambakjot.is. Það sem gerist í henni er að maður er við kjötborðið og biður um það sem eftir er af lambakjötinu í borðinu. Konan sem er fyrir aftan hann girnist kjötið og tekur því til sinna ráða. Hún lætur allt klinkið sitt detta á gólfið, biður manninn að hjálpa sér og meðan hann er að því tekur hún kjötið sem maðurinn pantaði. Þvínæst þakkar hún honum fyrir hjálpina með kjötið falið bakvið bak og stingur svo af.
Hverskonar mannvonsku og heigulshátt er Nóatún eiginlega að hvetja til? Aumingja maðurinn sýnir herramennsku sem maður verður sjaldan var við þessa dagana, og stelpan launar honum með því að stela af honum kjöti sem átti án efa að vera kvöldmatur handa fjölskyldunni hans.
Fyrir svo utan það að þetta er vonlaust og ömurlegt "kænskubragð". Í fyrsta lagi er stelpufíflið að treysta á að afgreiðslumaðurinn sé fullkominn hálfviti, sem hann svo að sjálfsögðu er. Hann lætur stelpuna hafa kjöt sem hann var búinn að pakka fyrir einhvern annan þó það sé deginum ljósara hvað hún ætlast fyrir. Í öðru lagi gerir hún ráð fyrir að mennirnir tveir geti af einhverjum ástæðum ekki miðlað upplýsingum sín á milli eftir að hún er farin. Það gengur að sjálfsögðu eftir líka. Afhverju spyr maðurinn ekki afgreiðslufíflið hvað hafi orðið um kjötið?? Hann myndi hafa nægan tíma til að elta konuna uppi og snúa hana niður, eða að hringja á lögregluna.

Ég ætla að leggja til við Markaðsráð kindakjöts að þessi auglýsing verði skotin upp á nýtt, og þá með handriti sem hefur kærleik og samkennd að leiðarljósi og tekur auk þess mið af raunverulegum mannlegm samskiptum. Ég læt ekki bjóða mér svona kjaftæði.

fimmtudagur, október 30, 2008

I. Mér hefur orðið tíðrætt um norsku blackmetal-hetjuna Gaahl á þessu bloggi. Fyrir nokkrum árum skrifaði ég færslu um hann eftir að hann hafði lent í fangelsi fyrir að drekka blóð úr einhverjum gaur í partíi. Nokkrum mánuðum eftir það ákvað ég að senda hljómsveitinni bréf sem finna má hér. Margir hefðu haldið að nokkura mánuða fangelsisvist hefði dregið úr athafnagleði Gaahls, en nei, svo er ekki. Þessa dagan er Gaahl, eða Kristian Eivind Espedal eins og hann heitir víst á frummáli, kominn út úr skápnum og er farinn að hanna kvenmannsföt með kærastanum sínum, módelumboðsmanninum Dan De Vero. Sögusagnir um þetta komust fyrst á kreik þegar De Vero sagði í viðtali að "Kristian og áttum í mjög nánu sambandi, og hann sagði mér oft að hann bæri afar sterkar tilfinningar til mín."
Hér má sjá mynd af þeim á góðri stundu

Við hér hjá Kærleikslandi óskum Gaahl að sjálfsögðu til hamingju með kynhneigð sína og óskum honum alls hins besta á nýjum starfsvettvangi sínum.

II. Í kjölfar efnahagshruns Íslands og aulaháttar hjá þeim sem bera ábyrgð, og þar sem útlit er fyrir algera uppstokkun á þjóðfélaginu hef ég ákveðið að hafa meiri áhuga á þessum hlutum en ég hafði áður. Ég læði jafnvel inn einni og einni færslu um eitthvað slíkt.

III. Ég er kominn með vinnu á Sæborg. Jibbí.

IV. Vill einhver selja mér Xbox 360?

þriðjudagur, október 28, 2008

Þetta finnst mér fyndið. Getur einhver útskýrt fyrir mér afhverju lið í dreifbýli kýs repúblikana á meðan lið í þéttbýli kýs demókrata? Besta svarið fær bloggverðlaun frá mér.

þriðjudagur, október 21, 2008

I. Airwaves yfirstaðin. Tónlistarlega var hátíðin hálfgerð vonbrigði. Eða kannski nennti ég bara ekki að hlusta almennilega því mér finnst tónlist leiðinleg. Allavega stóðu Swords of Chaos, FM Belfast og Boys in a Band upp úr.

II. Kreppa blablabla efnahagsástand blablabla

III. Ég held að heilinn á mér sé bilaður. Eða bara kominn fram yfir síðasta söludag.

IV. Rikke er enn og aftur farin til Danmerkur. Dísös.

fimmtudagur, október 02, 2008

I. Undanfarna daga og vikur er ég búinn að missa mig algjörlega í Harry Potter lestri. Ég las fyrstu bókina á sínum tíma og var mjög hrifinn, en gat svo aldrei ákveðið mig hvort ég vildi lesa næstu bók á ensku eða íslensku. Nú, 5 árum seinna tók ég ákvörðun og er búinn að spóla í gegn um Chamber of secrets, Prisoner of Azkaban, Goblet of Fire og Order of the Phoenix á ensku. Ég er búinn að lesa 1300 blaðsíður á innan við viku og er yfir mig hrifinn. Er að deyja úr spenningi yfir að lesa síðustu tvær.

II. Þrátt fyrir þennan endalausa pening sem dælt er í forsetakosningarnar í bandaríkjunum, og þá miklu áherslu sem lögð er á efnahagsmál, utanríkismál og og önur "málefni", þá er ég nokkuð viss um það að forsetakosningarnar í bandaríkjunum munu að lokum ráðast af því að nafnið Obama rímar við Osama, og að John McCain heitir næstum því John McClane, en John McClane er líklega erkitýpa amerískrar karlmennsku.

III. Ég gróf upp "Bók athafna" sem ég byrjaði á síðasta sumar, en gafst upp á eftir nokkra mánuði. Sú bók fólst í því að skrifa niður atburði hvers dags sem skáru sig úr öðrum dögum á eins hlutlausan hátt g ég gat og gaf þeim svo einkunn. Þetta var gert til að forðast það að allir dagar rynnu saman í eitt í minningunni. Hér er ein færsla:
" 21. júlí '07 Laugardagur
Fór í partí til Eika hennar Ylfu. Drakk mig pissfullan og hringdi í alla í heiminum og talaði með vestur-íslenskum hreim. Grenjaði smá. Endaði í gítar/þverflautupartíi með einhverjum útlendingum fyrir utan Hallgrímskirkju.
Einkunn: 7,0."
Ég er ekki frá því að ég verði eiginlega að endurvekja þessa ágætu bók..

fimmtudagur, september 11, 2008

I. Ég hef í gegn um árin alltaf verið afar góður að hafa ofan af fyrir sjálfum mér þannig að það kemur afar sjaldan fyrir að mér "leiðist". Þegar mjög hart er í ári (þ.e.a.s. ekki rassgat að gerast neinstaðar) þá er mitt bjargræði fólgið í því að gera aftur og aftur eitthvað ákveðið á internetinu. Tékka á pósti, tékka á kommentum á blogginu mínu, tékka á uglunni á HÍ, bíð eftir að Jessica Alba komi inn á MSN. Þetta gat ég gert tímunum saman. Núna er svo komið að ég hef ekkert slíkt til að dunda mér við lengur. Ég á aldrei von á neinum skemmtilegum pósti, fólkið á msn er leiðinlegt, ég er ekki lengur í Háskólanum og það les enginn bloggið mitt. Í gær lenti ég í því í fyrsta skipti í áraraðir að mér "leiddist". Ég sat bara og horfði á klukkuna. Það var ömurlegt.

II. Það entist þó ekki lengi því ég uppgötvaði það skyndilega að klukkan mín mælir tíma, og ég tók því upp á því að mæla hvað ég get haldið lengi niðri í mér andanum. Ég gerði þónokkrar tilraunir og reyndi ýmis afbrigði niður-öndunar-haldi til að ná sem bestum árangri. Að lokum náði ég lengst að halda niðri í mér andanum í 2 mínútur og 10 sekúndur, sem ég tel fjandi gott.

III. Hver var boðskapurinn með þessari sögu? Líklega enginn.

IV. Ég var að fatta að ég á alveg 3-4 gamlar bloggfærslur sem ég hef geymt sem uppköst en aldrei sett inn einfaldlega því ég hef ekki talið mannkynið í stakk búið til að takast á við þær. En nú erum við þó komin á það stig þróunar að vísindamenn eru farnir að skjóta einhverju drasli um einhverja kappakstursbraut í Sviss. Þvílíkt undur. Kannski er því kominn tími að ég setji færslurnar inn.

mánudagur, september 08, 2008

I. Mikið er ég orðinn þreyttur á að vera alltaf í tilvistarkreppu. Kominn tími á að hætta þessari vitleysu og fara bara að smíða kryddhillur eða e-ð.

II. Ég er búinn að fara hamförum í bíómyndaglápi undanfarið. Í gær horfði ég á spænska speennu/hryllings/eitthvað mynd sem hét Munaðarleysingjahælið eða El Orfanato sem situr svolítið í mér. Mæli með henni.

III. Hvernig stendur á því að í hvert skipti sem ég fer í röð í Krónunni eða Hagkaup eða e-ð, þá vel ég alltaf röð fulla af fólki sem er með einhverjar heimskulegar sérþarfir, t.d. að þurfa að fá nótu + afrit, krefjast þess að skoða allt sígarettuúrvalið og þar frameftir götum, þannig að það endar með því að það er búið að afgeriða um 300.000 manns í röðunum við hliðina á mér áður en ég loksins kemst að? Þetta var fyndið þangið til í síðustu viku þegar ég þurfti að bíða í u.þ.b 20 mínútur á meðan kerlingarandskotinn fyrir framan mig sendi alla búðina í leit að einhverjum helvítis Soda stream kútum. Ég held að það sé kominn tími á að hringja í Útvarp Sögu og láta rödd mína heyrast.

fimmtudagur, september 04, 2008

I. Undanfarnir dagar hafa varið í DVD-gláp frá helvíti sökum þess að ég get leigt myndir frítt í mánuð. Það hefur verið gaman þar sem ég er afar ógagnrýninn maður og finnst allar myndir sem ég sé frábærar.

II. Ég verð atvinnulaus þann 1. október nema einhver gefi mér vinnu. Gefið mér vinnu.

III. Ég er ennþá að bíða eftir fokking hljóðkortinu sem ég pantaði frá Exton fyrir 100 árum. Urr.

IV. Ég var alveg handviss um að þetta yrði frábær færsla þegar ég byrjaði á henni en smátt og smátt er annað að koma í ljós.

V. Ég fór í brúðkaup hjá Ernu og Jens síðustu helgi. Það var ææææðiiii.

VI. Þetta word verification dæmi hérna fyrir neðan verður alltaf erfiðara og erfiðara af einhverjum ástæðum

miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Handboltafærsla
---------------

I. Þvílík snilld. Dísös. Það segir margt um mátt hugans að það eitt að sjá einhverja sveitta þursa sem maður þekkir ekki neitt kasta bolta í net geti framkallað þvílíkar tilfinningar hjá manni. Þessi pólverjaleikur var skemmtilegur. Fátt jafnast við það að vera öskrandi af gleði einn heima hjá sér eldsnemma um morguninn.



II. Í tilefni af þessu mun ég gera lista yfir fimm sætustu sigra og fimm beiskustu ósigra landsliðsins í handbolta. Mun ég þar nýta mér gott minni á ártöl og slíkt.Fyrst verstu töpin:

5. Öll töp á móti Svíum. Man ekki hvað þeir unnu okkur oft en það var alltaf með þokkalegum mun og alltaf jafnglatað.

4. Ísland 28 - 34 Slóvenía. EM 2004 í Slóveníu. Gekk ágætlega framanaf en svo misstum við þrjá gaura útaf í einu og misstum allt niður um okkur. Allt gekk svo frekar illa eftir það og við prumpuðumst heim beint eftir riðlakeppnina.


3. Ísland - Spánn EM Þýskalandi. Man ekki alveg eftir þessum leik.. man bara að hann sökkaði yo.

2. Ísland 25 - 26 Ungverjaland. 8 liða úrslit á HM í Kumamoto 1997. Ég fór að hágrenja eftir þennan leik. Það var fyrsta og eina skiptið, enda var ég líka bara 12 ára. Ég verð yfirleitt hryllilega spenntur þegar ég horfi á mín lið keppa og tek úrslitin alltaf hrikalega inn á mig. Hinsvegar grenja ég ekki yfir þeim. Aumingjar grenja yfir íþróttum.

1. Ísland 40 - 41 Danmörk. 8 liða úrslit á HM í Þýskalandi 2007. Aulamark á síðustu sekúndunni eftir tvíframlengdan leik. Mesta ógeð sem ég hef horft upp á. Svo var líka öllum hljóðfærunum mínum rænt þetta kvöld.



III. 5. Ísland 27 - 18 Júgóslavía. Við unnum Jógóslavíu auðveldlega sem átti að vera með svo rosalega æðislegt lið. Geðveikt gaman. Svo hrækti einhver júggi framan í Patrek og fékk rautt spjald, sem var heví fyndið.

4. Ísland 32 - 28 Þýskaland. EM 2002. Leikur sem kom okkur í undanúrslit ef ég man rétt.

3. Ísland 32 - 30 Pólland. Ólympíuleikar 2008. Jurasik hver? Bielecki hver? Kuchczyński hver? Tłuczyński HVER? Ég bara spyr...... Samt svona án gríns, ég veit ekkert hverjir þetta eru.

2. Ísland 32 - 24 Frakkland. HM 2007. Höfðum tapað aulalega á móti Úkraínu í leiknum á undan og urðum að vinna Frakka, "besta lið heims" til að komast áfram. Áttum ekki að eiga mikla möguleika, en völtuðum svo yfir þá, bökkuðum aftur yfir þá, stigum svo úr bifreiðinni og pissuðum og gubbuðum á hræið. Sagt er að franska þjóðin hafi aldrei náð sér almennilega eftir þetta tap og að önnur borgarastyrjöld sé jafnvel í uppsigi.

1. Ísland 25 - 26 Svíþjóð. 17. júní 2006 (unnum samanlagt). Eftir að hafa tapað fyrir þessum IKEA-lúðum aftur og aftur í mörg, mörg ár hentum við þeim út úr HM, og gúrkan hann Staffan Olsson fór í fýlu. Verður eiginlega að vera efst þar sem þetta er í eina skiptið sem ég hef brotið sófa í fagnaðarlátum.


IV. Í tilefni af því að þetta er handboltafærsla, ætla ég að hafa persónuumfjöllun mína um Komma þar sem hann er eini vinur minn sem hefur almennilegan áhuga á handbolta.
Komma kynntist ég í Hagaskóla, og hann er líklega elsti vinur minn. Við kynntumst þegar við vorum 13 ára, sem er samt ekkert sérstaklega gamalt.
Kommi er sérlega skemmtilegur náungi og er hrókur alls fagnaðar hvert sem hann fer. Það stafar m.a. af hans óhóflegu persónutöfrum og því hversu góður hann er í að segja frá mönnum og atburðum. Það er alltaf gaman að spjalla við Komma og hlusta á hann segja frá. Að auki er hann hjartahreinn og góður drengur.

Kommi á sér þó sínar myrku hliðar. Þegar við vorum í 9. bekk braut Kommi mín legendary beyglugleraugu. Hann hljóp upp að mér einn daginn í einhverju sjúku bræðiskasti, reif þau af mér og braut þau í tvennt. Ástæðan hefur alla tíð verið augljós. Hann var afbrýðissamur vegna þeirra miklu vinsælda sem gleraugun veittu mér, og hefur að sjálfsögðu verið uggandi yfir því hversu hratt ég kleif vinsældastigann á hans kostnað, og ákveðið að taka til sinna ráða. Ekki átti Kommi beyglugleraugu, hann er ekki einusinni nærsýnn.

Nei djók. Hann braut reyndar gleraugun mín en það var alveg óvart.

Kommi spilar einnig handbolta, og er líklega besti línumaður í heiminum í dag. Afhverju hann er ekki löngu kominn í landsliðið er mér hulin ráðgáta, en það stafar eflaust af því að sem barn bjó hann um skeið á Álandseyjum, og það þarf ekki að fara mörgum orðum um hið sjúklega hatur sem ríkir á milli Álandseyinga og Íslendinga. Eg hef traustar heimildir fyrir því að hátt settir menn í HSÍ hafi beitt sér gegn honum í gegn um tíðina.

Leikari sem myndi leika hann í mynd: Rutger Hauer

fimmtudagur, júlí 24, 2008

I. Það er leiðinlegt lag í útvarpinu.

II. Ég fór á The Dark Knight í gær. Hún stóðst allar mínar væntingar o.s.frv.

III. Ég er að fara í útilegu á morgun. Jibbí jíbbí.

IV. Ég fékk feeeiiita kauphækkun. \o/

V. Ég breytti stofu-eldhúsinu mínu í svefnherbergisstofueldhús og svefnherberginu mínu í.........herbergi. Áður fyrr voru þetta því stofu-eldhús (11 stafir) og svefnherbergi (13 stafir) (= 24 stafir), sem mér tókst að breyta í svefnherbergisstofueldhús (25 stafir) og herbergi (8 stafir) (= 33 stafir)..... það er alveg 9 stafa aukning. Svona getur maður bætt við sig þegar maður er snjall og kann að hagræða rými.

VI. Ég málaði skrifstofuna í síðustu viku.

VII. Nanananananananananananananananana BATMAN!

VIII. Það er auglýsing í útvarpinu þessa dagana þar sem Laddi leikur konu sem er að fara á útsölu og segir "Gvöööð" ógeðslega mikið. Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu ófyndin hún er.

IX. Ég keypti Boss DD-20 Giga Delay og Korg Kaoss Pad um daginn. Þvílík hamingja. Með því komst ég að því að yfirgengileg verslun og peningasóun er það eina sem getur fært manni raunverulega hamingju.

X. Mun ég nú uppfylla loforð mitt frá því í síðustu færslu. Manneskjan sem ég ætla að skrifa um eeeer... Krummi. Krummi er öndvegisgaur sem varð fyrir strætó og hefur verið vinur minn í þónokkur ár. Ekki aðeins er hann ódrepandi (eins og strætóatvikið sannaði), heldur hefur hann heimsklassa sósjal skills. Hann töfrar fólk sem á vegi hans verður upp úr skónum með vinalegheitum, snjöllum tilsvörum og almennum hressleika. Ef hann væri sölumaður gæti hann selt eskimóa shark-repellant spray. Öllum líkar vel við Krumma. Þeim sem gera það ekki eiga líklega eitthvað bágt.
Ég bjó með Krumma í hálft ár og það var mjög afslappað og þægilegt. Þegar hann er heima tjillar hann bara og hangir í tölvunni í engum bol. Krummi er að fara til Asíu með systur minni eftir rétt tæpa viku. Ég er lítið búinn að heyra í honum undafarið. Kannski er hann of upptekinn að gera armbeygjur fyrir ferðina?

Leikari sem myndi leika hann í mynd: Kevin Costner

mánudagur, júní 23, 2008

I. Heimsóknarfjöldi á bloggið mitt hefur snarlækkað á undanförnum vikum. Hvernig má þetta vera? Og hvernig á ég að bæta úr þessu? Þetta þýðir væntanlega að ég þurfti að hisja upp um mig buxurnar, pota mér fram hvar sem færi gefst og networka af meiri mætti en ég hef nokkurntíman gert. Blogg eru eins og sjónvarpsþættir, ef áhorf snarminnkar þá er þátturinn bara tekinn af dagskrá og handritshöfundar verða atvinnulausir og allslausir aumingjar. Og mig langar ekkert til að hætta að blogga! En til þess þarf ég lesendur. Ég meina ekki er ég að gera þetta fyrir sjálfan mig. Fólk sem skrifar "eingöngu fyrir sjálft sig" er greinilega með lélegan heila.

II. Ég og hljómsveitin mín héldum okkar fyrstu tónleika á Kaffi Hljómalind á föstudaginn. Ég forðaðist að segja nokkrum manni frá þeim því ég var svo hræddur um að þetta yrði algjört drasl. En blessunarlega sáu hinir hljómsveitarmeðlimirnir um að smala saman fólki og þetta gekk svo bara ljómandi vel þrátt fyrir skipulagsgubb hjá Hljómalind og prumpsánd. Þakka öllum sem mættu og munu mæta í framtíðinni.

III. En snúum okkur aftur að blogglestrarleysi. Maðurinn er mjög egósentrískur í eðli sínu (eins og þessi færsla er gott dæmi um), og til þess að laða að lesendur þarf ég að höfða til þeirra með því að skrifa um eitthvað sem þeir fíla eða eru sammála. Jafnvel að skrifa beint um viðkomandi. Og það er einmitt það sem ég ætla að gera. Síðasti liður í næstu færslum verður því efnisleg umfjöllun um einhvern af vinum/fjölskyldumeðlimum mínum. Ég nenni samt ekki að byrja á því núna en geri það bara í næstu færslu. Það er því eins gott að þið lesið bloggið á hverjum degi því annars er hætta á að þið missið af ykkar umfjöllun. HEYRIÐI ÞAÐ?

IV. Mér tókst að spá hverjum einasta leik í átta liða úrslitunum á EM vitlaust. Ekki slæmt þótt ég segi sjálfur frá. Ég stend þó við spá mína í byrjun móts um að Þjóðverjar vinni dolluna. Þó ég hafi spáð þeim tapi á móti Portúgölum.

V. Og fyrst ég er nú að skrifa um fótbolta ætla ég að gloata aðeins yfir því að Ronaldo sé líklega á leiðinni til Madrid: ha ha ha. Manchester er búið að vera eins manns lið í tvö tímabil og munu núna sökkva aftur ofan í skítinn þar sem þeir eiga heima. Ekki á ég eftir að sjá eftir þessum táfýluskunk.